Brann staðfesti þetta á heimasíðu sinni í dag:
„PSG kom með tilboð sem við gátum ekki hafnað. Því miður hefur hún ekki getað spilað eins mikið fyrir okkur og við vildum vegna meiðsla, en við óskum henni velfarnaðar,“ sagði Olli Harder, yfirþjálfari hjá Brann.
PSG hefur verið í hópi bestu liða Evrópu undanfarin ár og verið eina liðið sem veitt hefur Lyon keppni í frönsku deildinni.
PSG varð Frakklandsmeistari vorið 2021 en endaði í 2. sæti frönsku deildarinnar á síðustu leiktíð og féll úr leik í undanúrslitum Meistaradeildarinnar eftir samanlegt 5-3 tap gegn Lyon.
Lykke til videre, Berglind!https://t.co/OM2HXbLo1v
— SK Brann Kvinner (@skbrannkvinner) August 24, 2022
Berglind kom til Brann frá Hammarby í janúar og skrifaði undir samning sem gilda átti út árið 2023. Eins og Harder benti á spilaði hún ekki mikið fyrir Brann í sumar. Hún var aðeins í byrjunarliðinu í þremur deildarleikjum á tímabilinu.
Berglind var aftur á móti aðalframherji Íslands á Evrópumótinu í Englandi í júlí og skoraði eitt mark, í 1-1 jafnteflinu gegn Belgum.
Berglind snýr þar með aftur til Frakklands eftir að hafa spilað þar með Le Havre tímabilið 2020-21. Hun hefur einnig leikið á Ítalíu og í Hollandi sem atvinnumaður, en með Breiðabliki, Fylki og ÍBV hér á landi auk þess að spila með Florida State háskólanum í Bandaríkjunum.
Berglind er þrítug og á að baki 66 A-landsleiki, og hefur skorað í þeim tólf mörk. Hún er að sjálfsögðu í íslenska landsliðshópnum sem mætir Hvíta-Rússlandi og Hollandi 2. og 6. september, í síðustu leikjunum í undankeppni HM þar sem Ísland á möguleika á að vinna sér inn HM-sæti í fyrsta sinn.