Finnskir miðlar grófu í dag upp skjáskot úr myndbandi sem finnski áhrifavaldurinn Sabina Särkkä birti á TikTok-síðu sinni fyrr í mánuðinum. Särkkä var gestur í sánusamkvæmi heima hjá Sönnu í forsætisráðherrabústaðnum.
Á skjáskotinu má sjá Särkkä kyssa aðra konu en nafn hennar hefur ekki verið gert opinbert. Þær halda báðar bol sínum uppi og fela brjóst sín með skilti sem Sanna notaði á blaðamannafundi tengdum inngöngu Finna í Evrópusambandið.
Bakgrunnurinn á myndinni er blátt skilti sem ríkisstjórnin notar á blaðamannafundum sínum. Sanna vill meina að einhver hluti myndarinnar sé falsaður og líklegt er að hún sé að tala um bakgrunninn.
Tässä harjoitellaan jo tiedotustilaisuuden pitämistä jos PM on estynyt #kesärata22 pic.twitter.com/D2dj0pONkh
— Heikki-Anneli Vateva (@AnneliHeikki) August 22, 2022
Sanna hefur beðist afsökunar á þessu og sagt að myndin hafi aldrei átt að vera tekin. Hún segir þó að gestir samkvæmisins hafi einungis fengið að fara inn í bústaðinn til þess að nota klósettið.
Einkalíf Sönnu hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið en í síðustu viku fór myndband í dreifingu þar sem hún sást vera að dansa með vinum sínum í einkasamkvæmi. Einhverjir andstæðingar hennar í stjórnmálunum sökuðu hana um að vera á eiturlyfjum þegar myndbandið var tekið.
Hún tók fíkniefnapróf sem sýndi fram á að hún hafi ekki tekið eiturlyf þetta kvöld. Hún hefur haldið því staðfastlega fram að hún hafi einungis neytt áfengis kvöldið sem myndbandið var tekið.