Silkeborg sótti Nordsjælland heim en ljóst var að liðið gæti jafnað toppliðið að stigum með sigri. Leikmenn liðsins virðast hafa verið vel meðvitaðir um það því þeir mættu af miklum krafti til leiks.
Aðeins þrjár mínútur voru liðnar af leiknum þegar Tonni Adamsen kom liðinu í forystu eftir stoðsendingu frá Ferslev Anders Klynge. Þá tvöfaldaði Adamsen forystuna á 15. mínútu, í það sinn eftir sendingu Olivers Sonne.
Stefán Teitur kom inn á sem varamaður á 87. mínútu og hjálpaði Silkeborg að sigla 2-0 sigrinum í höfn.
Liðið er þá á toppi deildarinnar með 13 stig, líkt og Nordsjælland og AGF, lið landsliðsmannsins Mikaels Anderson, en hann skoraði annað marka liðsins í sigri á Midtjylland í gær.
Silkeborg er á toppnum með bestu markatöluna, sex mörk í plús, svo kemur AGF með marki minna og þá Nordsjælland með fjögur í plús.