Það var einungis skattakóngur ársins 2021, Magnús Steinarr Norðdahl, sem var með hærri launatekjur en Árni Oddur með tæplega 118 milljónir króna á mánuði. Himinháar tekjur hans skýrast aðallega af uppgjöri á kaupréttarsamningi hans þegar LS Retail, fyrirtækið sem hann stýrði, var selt.
Í þriðja sæti listans yfir launahæstu forstjóra landsins er Brett Albert Vigelskas, framkvæmdarstjóri Costco á Íslandi.
Tíu launahæstu forstjórar landsins árið 2021 í milljónum króna
- Magnús Steinarr Norðdahl, fv. forstj. LS Retail - 117,682
- Árni Oddur Þórðarson, forstj. Marels - 42,768
- Brett Albert Vigelskas, frkvstj. Costco á Íslandi - 24,283
- Björn Hembre, forstjóri Arnarlax - 23,903
- Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstj. AtNorth - 22,654
- Hjalti Baldursson, frkvstj. Bókunar - 21,758
- Helgi Helgason, frkvstj. Verne Global á Íslandi - 17,369
- Jón Þorgrímur Stefánsson, forstj. NetApp - 15,408
- Kári Stefánsson, forstj. Ísl. erfðagr. - 13,425
- Margrét Björk Tryggvadóttir, forstjóri Nova - 9,691
Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í dag en rétt er að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2021 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2020 sem var greiddur árið 2021.
Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá en í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, til dæmis af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Þá ber að hafa í huga að inn í tekjunum geta líka verið einskiptisgreiðslur vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.
Verktakagreiðslur flokkast ekki sem útsvarsskyldar tekjur og eru því ekki teknar fyrir í álagningaskrá Ríkisskattstjóra sem Tekjublaðið styðst við.