Fótbolti

Dæmdur í leikbann meira en ári eftir að hann hætti í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Coentrao þegar hann var leikmaður Sporting CP. Hér fer vel á með honum og dómaranum.
Fabio Coentrao þegar hann var leikmaður Sporting CP. Hér fer vel á með honum og dómaranum. EPA-EFE/ANTONIO COTRIM

Fabio Coentrao, fyrrum leikmaður Real Madrid, vakti athygli fyrir einu og hálfu ári síðan þegar hann hætti í fótbolta og snéri sér að fiskveiðum. Nú er kappinn aftur í fréttum.

Portúgalska knattspyrnusambandið hefur nefnilega dæmt Coentrao í eins leiks bann og sektað hann um 850 evrur eða um 120 þúsund krónur.

Ástæðan eru móðganir og ítrekuð brot í 3-3 jafnteflisleik Rio Ave á móti Boavista í apríl á síðasta ári.

Coentrao hefur ekki spilað fótboltaleik síðan hann kvaddi Rio Ave í tapleik 30. maí 2021.

Hann tilkynnti í framhaldinu að hann væri hættur og snéri sér að fiskveiðum þar sem hann stjórnar flota fiskibáta í Setubal. Um 45 manns vinna fyrir Coentrao í dag.

Portúgalska knattspyrnusambandið og portúgalska deildin kenna hvoru öðru um það hversu lengi málið var að flækjast í kerfinu.

Sambandið á hafa bent tvisvar sinnum á atvik sem þyrfti að skoða á meðan deildin segist alltaf reyna að taka agamál fyrir sem fyrst.

Coentrao sagði að faðir hans hafi alltaf átt bát og var mjög áhugasamur um fiskveiðar.

„Ég vissi að fótboltaferillinn myndi enda einn daginn og lífið tæki nýja stefnu. Mín hamingja í dag er sjórinn og þetta líf. Það er engin skömm að vera sjómaður eins og sumir halda. Sannir menn eru þeir sem fara út á sjó,“ sagði Fabio Coentrao í viðtali í desember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×