Áskrift af Disney+ hefur hingað til kostað átta dollara á mánuði en í desember mun verðið hækka í ellefu dollara á mánuði. Á sama tíma verður nýrri áskriftarleið bætt við þar sem áskrifendur þurfa að horfa á auglýsingar með efninu en sú leið mun kosta átta dollara.
Hingað til hefur Disney+ ekki sýnt áhorfendum auglýsingar en með þessu vonast Disney til að bæta enn frekar í áskrifendahóp sinn. Samkvæmt Reuters tók Disney+ fram úr Netflix á síðasta ársfjórðungi sem sú streymisveita sem er með flesta áskrifendur.
Áskrifendur Disney+ eru nú um 221 milljón talsins en Netflix er með um milljón færri áskrifendur. Þar með var Netflix steypt af stalli sem vinsælasta streymisveita heims.