Þórir gengur undir listamannsnafninu Listapúkinn en sýningin ber nafnið Sýning Listapúkans. Hér er á ferðinni afkastamikill listamaður og er um að ræða hans sjöundu sýningu á síðastliðnum tíu árum.

Þórir er Mosfellingur í húð og hár ásamt því að vera núverandi bæjarlistarmaður. Því má með sanni segja að það sé við hæfi að Þórir sýni í Listasal Mosfellsbæjar.
Ævintýralegt og framandi í bland við hversdagsleikann
Verk Þóris eru fjörleg og litrík og hver mynd segir sögu. Sýningu Listapúkans er skipt upp í fjögur þemu: Dýramyndir, mannlýsingar og umhverfi, myndir frá Prag og nýjar myndir. Viðfangsefnið er stundum ævintýralegt og framandi en stundum er það hversdagsleikinn í umhverfi listamannsins sem er festur niður á blað. Myndirnar frá Prag eru innblásnar af ferð sem Þórir fór síðastliðinn maí með Myndlistaskólanum í Reykjavík. Verkin sem tilheyra flokknum nýjar myndir eru enn nýlegri en það, jafnvel aðeins nokkurra daga gömul, en í fréttatilkynningu segir að Þórir sé sístarfandi, enda afkastamikill í list sinni.

Síðasti sýningardagur er 2. september næstkomandi. Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Þverholti 2. Opið er frá klukkan 9-18 alla virka daga og 12-16 á laugardögum. Gott hjólastólaaðgengi er að salnum. Öll hjartanlega velkomin.