Lífið

Vaknaði berrassaður úti í móa og tjaldið horfið

Elísabet Hanna og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Stefán Örn Þórisson var síðast á Þjóðhátíð á níunda áratugnum. Þá vaknaði hann berrassaður og tjaldslaus úti í móa.
Stefán Örn Þórisson var síðast á Þjóðhátíð á níunda áratugnum. Þá vaknaði hann berrassaður og tjaldslaus úti í móa. Skjáskot

Fréttamaður Stöðvar 2 náði tali af tveimur gestum Þjóðhátíðar sem höfðu ansi hreint ólíkar sögur að segja af fatnaði. Annar var klæddur í sitt fínasta púss en hinn rifjaði upp þegar hann vaknaði berrassaður úti í móa síðast þegar hann var á Þjóðhátíð.

Fréttamaður hitti á Stefán Örn Þórisson, Þjóðhátíðargest, sem var staddur í Herjólfsdal. Hann sagðist síðast hafa verið í Herjólfsdal á Þjóðhátíð árin 1985 og 1986 en þá lenti hann í heldur sérkennilegri uppákomu.

„Ég á ansi ferskar minningar frá því að ég vaknaði einn morguninn. Þá var tjaldið horfið og ég sat allt í einu berrassaður úti í móa og vissi ekkert hvert ég ætti að fara,“ sagði Stefán við fréttamann.

„Ég fékk lánaðar buxur hjá Gunnari Pálssyni, vini mínum, og svo héldum við bara áfram,“ sagði Stefán aðspurður um hvað hefði tekið við eftir uppákomuna.

Hann segir að í dag sé hins vegar „æðislegt í dalnum“ og „geðveikt veður“ og að þjóðhátíð sé eitthvað sem allir verði að upplifa.

Fólk á Þjóðhátíð klæði sig eins og það vill

Fréttamaður náði einnig tali af Ólafi Frey Ólafssyni sem var ansi vel uppábúinn en að hans sögn verður maður að vera fínn á daginn á Þjóðhátíð „og enn þá flottari á kvöldin.“

Hann segir tískuna á þjóðhátíð vera alls konar og fólk klæði sig „nákvæmlega eins og það vill vera“ sem sé skemmtilegt.

Á Þjóðhátíð verður maður víst að vera fínn á daginn og enn fínni á kvöldin. Allavega samkvæmt Ólafi Frey.Skjáskot





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.