Á tölfræðisíðu UEFA má meðal annars sjá að Sandra Sigurðardóttir er sá markvörður sem varði flest skot allra markvarða í riðlakeppninni, eða sautján talsins. Næstar á eftir henni voru markverðir Belgíu, Noregs og Norður-Írlands með fjórtán varin skot.
Engin hljóp heldur hraðar en Sveindís Jane Jónsdóttir en hún náði 31,7 km/klst, sem er yfir leyfilegum hámarkshraða bíla víða í íbúðahverfum. Engri annarri tókst að ná 31 km/klst hraða.
Glódís Perla Viggósdóttir varð svo í 2. sæti yfir þá leikmenn sem náðu boltanum oftast af andstæðingunum en það gerði hún 27 sinnum. Aðeins Lia Wälti frá Sviss gerði betur og vann boltann 31 sinni.
Flestar tæklingar en fæstar heppnaðar sendingar
Íslenska liðið vann líka flestar tæklingar í riðlakeppninni eða 48 talsins, einni fleiri en Holland, og liðið varð í 6. sæti yfir flesta hlaupna kílómetra því það fór samtals 332,2 kílómetra í leikjunum þremur. Leikmenn Austurríkis hlupu mest eða 344 kílómetra.
Öllu neikvæðari er sú staðreynd að Ísland stóð sig verst allra liða í að senda boltann á samherja því aðeins 68,67% sendinga heppnuðust. Ísland var eina liðið sem ekki náði 70% sendingahlutfalli en á toppnum þar urðu Englendingar með 88,7% sendinga heppnaðar.
Liðið var með boltann 42,34% leiktímans sem var meira en Danir, Finnar og Norður-Írar.