Heilbrigðisráðherra lagði fram þá tillögu að lagasetningu að refsing yrði afnumin fyrir „veikasta hóp samfélagsins í tilteknum tilvikum með tiltekið magn og efni ávana- og fíkniefna,“ eins og það er orðað í umfjöllun tillögunnar í samráðsgáttinni. Þá yrði frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta ekki endurflutt.
Júlía Birgisdóttir, formaður Snarrótarinnar - samtaka um skaðaminnkun og mannréttindi, segir þetta mikið bakslag. „Þessar tillögur um að það eigi bara að hætta að refsa veikasta hópinum, þetta er bara ekki framkvæmanlegt og örugglega ekki löglegt,“ segir Júlía og bendir á að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.
„Hver er skilgreiningin á því að komast í þennan hóp, þannig að þér er ekki refsað? Þarf að vera búið að refsa þér ákveðið oft? Þetta er bara fráleitt,“ segir hún enn fremur.
Krafan hafi verið skýr
Hún bendir á að meirihluti landsmanna hafi verið hlynntur afglæpavæðingu líkt og fram kom rannsókn í sem framkvæmd var í tengslum við frumvarp fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttir, í fyrra. Þá hafi önnur rannsókn í mars sýnt fram á hið sama.
„Við höfum verið alveg skýr í því að við viljum náttúrulega afglæpavæða neysluskammta og höfum verið mjög hörð á því að það eigi að vera notendasamráð,“ segir Júlía. „Svo kannski að þessi umræða um hvað sé neysluskammtur skipti ekki alveg öllu máli, heldur bara að það þurfi að hætta að vera þetta tæki til að áreita fólk.“
Hún gagnrýnir þá að lögregla eigi meðal annarra sæti í starfshóp heilbrigðisráðherra, sem skipaður var í febrúar og er áætlað að skili niðurstöðu sinni næsta vetur, enda ætti lögregla ekki að stjórna því hvaða tæki þau geta beitt gegn viðkvæmum hópum.
Ekki bjartsýn á framhaldið
Nokkur frumvörp hafi verið lögð fram um afglæpavæðingu neysluskammta á síðasta kjörtímabili og Snarrótin borið veika von í brjósti.
„Þetta er bara mjög ömurlegt að fylgjast með, við upplifðum það svona smá eins og það væri eitthvað að fara að gerast síðustu ár, en svo bara er augljóst að það er ekki eins nálægt og maður hélt,“ segir Júlía.
Þá er hún ekki bjartsýn á að afglæpavæðing verði aftur á dagskrá á þessu kjörtímabili, ef viljinn hefði verið fyrir hendi hefði málið náð í gegn.
„Ég held að þessi ríkisstjórn eigi ekki eftir að gera neitt og ég held að þessar tillögur séu aðeins til að slá ryki í augun á fólki,“ segir hún.