Að hjálpa, aðstoða eða leysa einstaka verk fyrir vinnufélaga er ekkert nema sjálfsagt og gott út af fyrir sig.
En ef þú ert í þeim sporum að álagið á þér er hreinlega of mikið í vinnunni, vegna þess að þú ert að sinna þínum verkum og margt af því sem samstarfsmanneskja á að gera, er rétt að staldra aðeins við.
Því það dregur úr þinni ánægju og vellíðan gagnvart vinnunni og vinnustaðnum. Líkurnar á kulnun aukast og ef eitthvað er, hættir þú að geta sinnt þínum verkefnum eins vel og þú vildir vegna þess að þú ert að vinna svo miklu meira en umræddur aðili, nánast að vinna á við tvo!
Hér eru því nokkur ráð til að komast út úr þessum vítahring.
#1. Samkennd og lausnir frekar en neikvæðni
Við viljum komast út úr þessum vítahring en helst án þess að skapa leiðindi.
Oft er það einmitt þetta sem fólk veit ekki hvernig það á að takast á við: Að leysa úr málum en á jákvæðan hátt.
En það er hægt.
Lykilatriðið er að gefa sér góðan tíma í fyrsta skrefið. Sem felst í því að skoða verkefnin okkar í vinnunni og í hvað dagarnir fara.
Sérfræðingur sem Insider ræddi við mælir með því að fyrst skoðum við vel þau verkefni sem okkur er ætlað að sinna samkvæmt starfslýsingu og hlutverki.
Næst er að skoða þau verkefni sem við teljum ekki eiga vera á okkar könnu, heldur verkefni sem umræddur samstarfsfélagi á að sinna. Annað hvort samkvæmt hans/hennar starfslýsingu eða svo jafnræðis sé gætt.
Þegar við erum komin með þessa yfirsýn er kominn tími til að leysa úr málum.
Með samkennd og lausnamiðuðu samtali.
Til að undirbúa okkur undir það samtal, byrjum við á því að velta fyrir okkur hver við teljum vera elsta vandann hjá umræddum aðila. Er það lélég tímastjórnun, kunnáttuleysi, leti eða eitthvað annað?
Að velta þessu fyrir okkur gerir okkur betur kleift að velja réttu leiðina eða aðferðina til að leysa jákvætt úr málum.
Sem við gerum með því að koma með tillögu að lausnum.
Til dæmis að segja einn daginn (með brosi á vör):
„Já ég var einmitt að hugsa að ég ætlaði að kenna þér betur að gera þetta, þannig að þú getir farið að sjá um þetta sjálf/ur."
#2. Oft er eitt skipti ekki nóg
Næst þurfum við að huga að þrautseigjunni.
Því það er staðreynd að fólk sem hefur lengi komist upp með að aðrir vinni verkin þeirra, virðist ekki ná í fyrsta kasti þeim skilaboðum að þú ætlir ekki að sinna ákveðnum verkefnum fyrir hann/hana lengur.
En sért reiðubúin/n til að aðstoða með kennslu ef þarf.
Það er mikilvægt að átta sig á þessu fyrirfram, því annars verðum við svo svekkt þegar að við erum nýbúin að fara í gegnum skref #1 (og nokkuð ánægð með okkur!) en daginn eftir kemur sami starfsmaður aftur og biður okkur um að sjá um eitthvað.
Hér getur líka verið gott að æfa okkur í setningum sem við erum með tilbúnar fyrirfram. Til dæmis:
„Nei ég næ því miður ekki að fara í þetta fyrir þig því ég þarf að klára nokkur verkefni sem ég er með.“
Og jafnvel að vera með tillögu eins og: „Ferðu ekki bara í þetta á eftir eða í fyrramálið?“
Aðalmálið er að hnika ekki frá þínum mörkum.
#3. Svo margir sem kunna ekki að segja NEI
Eitt sem hjálpar líka er að minna sjálfan sig á að það er svo ofsalega margt fólk í sömu sporum og við: Að þurfa betur að læra að segja NEI.
Sumir þurfa til dæmis að þjálfa sig í að segja NEI oftar innan fjölskyldunnar. Aðrir við vinnufélagana. Og enn aðrir bara almennt við vini, vandamenn og vinnufélaga.
Að taka sér tíma í að læra að segja NEI er því ekkert til að skammast sín fyrir og um að gera að takast á við þessa þjálfun sem fyrst.
#4. Verður auðveldara og auðveldara og auðveldara...
Það erfiða við að vera í þessum aðstæðum er að þetta tekur svo mikla orku frá okkur.
Ekkert endilega verkefnin sjálf fyrir umræddan aðila, heldur það hvernig okkur líður með að vera að gera það.
Því við vitum að þetta er rangt!
En vittu til: Ef þú þjálfar þig í að standa á þínum mörkum og þjálfar þig í að segja NEI oftar, verður þetta auðveldara og auðveldara áður en þú veist af.
Og þá léttir á þér svo um munar og þér fer að líða betur, verður kátari og almennt ánægðari í vinnunni.
Við eigum alltaf að standa með okkur sjálfum!
#5. Að fá samviskubit er bannað
Loks þurfum við að ræða aðeins samviskubitið.
Því það er algengt að fyrst þegar fólk fer að standa með sjálfum sér og segja NEI við vinnufélaga, sem þó eru ranglega að komast upp með að velta öllu sínu yfir á þig, þá fáum við samviskubit!
Þegar að þú finnur þessa tilfinningu læðast að þér er því gott að fara aftur yfir skref #1.
Lesa vel yfir verkefnin sem þú varst búin/n að skrá að væru réttilega þín verkefni. Lesa síðan þau verkefni sem þú hefur verið að sinna en eru réttilega þau verkefni sem umræddur aðili á að vera að sinna og muna að markmiðið þitt er að:
Hann/hún vinni sína vinnu þannig að þú getir betur notið þess að vinna þína vinnu, án þess að vera í tvöföldu álagi!