Veiði

Næst besta opnun sumarsins er í Stóru Laxá IV

Karl Lúðvíksson skrifar
Finnur og Nökkvi með 93 sm lax sem veiddist í fyrradag á svæði IV í Stóru Laxá
Finnur og Nökkvi með 93 sm lax sem veiddist í fyrradag á svæði IV í Stóru Laxá

Stóra Laxá IV opnaði fyrir veiði í fyrradag en það hefur verið töluvert mikið vatn í ánni og mikið rok sem maður hefði ætlað að drægi úr veiðinni.

Það var þó alls ekki þannig því í gærkvöldi eftir tvo daga var þetta holl sem telur fjórar stangir búið að landa sextán löxum sem er næst besta opnun sem við höfum frétt af í laxveiðiá í sumar. Það sem vekur síðan enn meiri athygli er að af þessum sextán löxum voru tveir undir 60, þrír yfir 90 sm og ellefu laxar milli 80 og 90 sentimetrar. Stærstu laxarnir voru tveir 92 sm og einn 93 sm. 

Bergljót Þorsteinsdóttir með glæsilega hrygnu úr Hólmabreiðu

Flestir laxarnir veiddust í Hólmabreiðu en annars var lax að sjá nokkuð víða í ánni og þrátt fyrir að það hafi verið ansi hvasst í gær komu 8 laxar á land. Þetta rómaða efsta svæði í Stóru Laxá er langt inní landi og ef maður ímyndar sér hvað laxinn þarf að vera röskur úr sjó, upp Ölfusá og Hvítá, síðan upp alla Stóru Laxá og veiðast síðan silfraður og nýgengin fullur af orku til að takast á við veiðimenn þá sést hvað þetta er mögnuð skepna.

Neðra svæðið verður opnað í vikunni en núna er því háttað þannig að svæðin sem voru einu sinni 1-2-3 eru veidd saman. Öllum laxi í ánni er sleppt og núverandi leigutakar eru að undirbúa ný veiðihús sem verða tekin í notkun 2023 en gömlu húsin hafa fengið ansi mikla yfirhalningu. Mikið átak hefur verið í náttúrulegri ræktun og verður því starfi haldið áfram.

Fréttin hefur verið uppfærð.






×