Hinn 23 ára gamli Mbappé er einn frægasti íþróttamaður dagsins í dag. Hann kom öllum á óvart er hann endursamdi við París Saint-Germain en allir og amma þeirra töldu að Mbappé væri á leið til Real Madríd í sumar.
Svo reyndist ekki en PSG gerði allt sem í valdi þeirra stóð til að halda leikmanninum. Meðal annars mætti Frakklandsforseti til að segja honum hversu mikilvægt það væri fyrir þjóðina að framherjinn yrði áfram í Frakklandi.
Mbappé ætlar greinilega ekki aðeins að láta taka til sín á vellinum en hann hefur stofnað Zebra Valley, framleiðslufyrirtæki sem mun koma að allskyns efni tengdu íþróttum, tónlist, list, tækni, tölvuleikjum og menningu barna.
Kylian Mbappé has signed with WME Sports to launch his own production banner, Zebra Valley.
— B/R Football (@brfootball) June 15, 2022
The production company will make scripted, non-scripted and animation content centered on sports, music, art, technology, consumer products, gaming and youth culture pic.twitter.com/GKTREKpVMk
Til að tryggja framtíð fyrirtækisins hefur Mbappé samið við WME Sports, eina stærstu umboðsskrifstofu heims, en hún er í eigi afþreyingarrisans Endeavor. Samkvæmt fréttaflutning ytra mun WME Sports einnig taka yfir sem umboðsmaður leikmannsins en til þessa hafa ættingjar hans sinnt því hlutverki.
Það þekkist vel að íþróttamenn færi út kvíarnar og prófi sig áfram á öðrum sviðum. LeBron James, körfuboltamaður hjá Los Angeles Lakers, er eflaust besta dæmið. Það sem gerir Mbappé einstakan er hversu ungur hann er. Það er spurning hvort þetta muni hafa áhrif á hann innan vallar en pressan er nú þegar gríðarleg eftir risasamning hans við PSG.