Gnonto var að spila sinn fimmta landsleik fyrir Ítalíu þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gamall. Hann var í byrjunarliði Ítala og skoraði fyrra mark liðsins á 78. mínútu er hann minnkaði muninn í 5-1.
Hann bætti þar með met Bruno Nicole, sem yngsti markaskorari í sögu ítalska landsliðsins sem hafði staðið í 64 ár, frá 1958.
Gnonto þykir á meðal efnilegri leikmanna Evrópu en hann tók athyglisverða ákvörðun þegar hann ákvað að yfirgefa stórlið Internazionale í Mílanó til að ganga í raðir FC Zürich í Sviss. Þar hefur hann spilað 59 deildarleiki og skorað níu mörk á tveimur leiktíðum og vann svissneska meistaratitilinn með liðinu í vor.