Unnu þær sína flokka og nældu þar með í sitt hvorn heimsmeistaratitilinn.
Matthildur hefur átt góðu gengi að fagna í kraftlyftingum að undanförnu og landaði til að mynda heimsmeistaratitli í klassískri bekkpressu á HM unglinga á síðasta ári.
Sjá einnig: „Súrrealískt að fatta svo að ég væri orðin heimsmeistari“

Matthildur keppir í mínus 84 kílógrammaflokki unglinga. Á síðasta ári lyfti hún mest 117,5 kílógrömmum en sú þyngd og gott betur flaug upp í Kasakstan. Hún lyfti fyrst 115 kg, þaðan fór hún í 120 kg og bætti eigið Íslandsmet sem sett var á síðasta ári.
Matthildur lét það ekki nægja og lyfti á endanum 125 kílógömmum sem gerir það að verkum að hún var stigahæst allra í sínum flokki og landaði þar með heimsmeistaratitlinum.

Matthildur var ekki eini Íslendingurinn á mótinu en Alexandra Rán Guðnýjardóttir keppti í mínus 63 kílógramma flokki, líkt og Matthildur þá vann Alexandra Rán einnig til gullverðlauna. Hún hefur einnig látið að sér kveða í heimi kraftlyftinga þar sem hún nældi í silfur á HM í fyrra og var Norðurlandameistari árið 2021.
Alexandra Rán lyfti fyrst 95 kílógrömmum og svo 100 kg áður en 102,5 kílógrömm fóru upp sem skilaði henni gullverðlaunum. Hún náði jafnframt þriðja besta árangrinum á stigum.


Fréttin hefur verið uppfærð.