Veiði

Fyrstu laxarnir komnir í Laxá í Kjós

Karl Lúðvíksson skrifar
Haraldur Eiríksson með lax úr Kjósinni 2021
Haraldur Eiríksson með lax úr Kjósinni 2021

Fyrstu laxarnir sáust í Laxá í Kjós í gær og það kemur engum á óvart sem þekkir Laxá vel að fyrstu lónbúarnir séu mættir.

Það koma venjulega fréttir af fyrstu löxunum í Laxá í Kjós um þetta leiti á hverju ári og einn ágætur velunnari Laxá hefur haft það á orði að 25. maí væri dagurinn sem þeir mæta. Þeir eru þá bara einum degi á undan áætlun og hvort það sé einhver fyrirboði um góða veiði í sumar skal ekki fullyrt.

Laxveiðin hefst 1. júní en þá hefst veiði við Urriðafoss í Þjórsá en hún er heldur óárennanleg þessa dagana enda í 700 rm sem gerir hana ekki óveiðandi en áskorun verður það. Vatnsbúskapur laxveiðiánna er með besta móti miðað við mörg önnur vor. Nóg vatn er í ánum og á hálendinu sem vonandi verður til þess að gott vatn verði lengst af í sumar þó svo að það komi eitthvað þurrkatímabil. Það er mikil spenna í loftinu eftir því að fá fregnir af fyrstu löxum sumarsins eins og alltaf enda langur vetur erfiður fyrir veiðimenn og veiðikonur sem bíða með gljáfægðar stangir og þrá ekkert heitara en að komast í vöðlur og út í á.






×