Rússar hörfa nú frá Kharkiv, næststærstu borg Úkraínu, eftir að hafa látið sprengjum rigna yfir hana undanfarnar vikur. Harðir bardagar geisa enn í Donbas í austurhluta landsins. Breska varnarmálaráðuneytið telur að Rússar hafi misst allt að þriðjung landshersins sem þeir sendu inn í Úkraínu í febrúar.
Ríkisstjóri í Lviv-héraði segir upplýsingar um fallna og særða ekki liggja fyrir eftir að Rússar skutu eldflaug á hernaðarmannvirki þar snemma í morgun. Árásir Rússa þar hafa meðal annars beinst að járnbrautarinnviðum en Lviv er nærri pólsku landamærunum. Þar í gegn hefur stór hluti vopnasendinga frá Atlantshafsbandalaginu farið.
Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- Vestrænir ráðamenn segja innrás Rússa ganga illa og Úkraínumenn segjast hafa stöðvað allar sókniri Rússa í dag.
- Vinsælir rússneskir bloggarar eru hneykslaðir á vangetu rússneskra herforingja eftir að Úkraínumenn svo gott sem þurrkuðu út heila herdeild í austurhluta Úkraínu fyrr í vikunni.
- Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings, og hópur þingmanna flokksins heimsóttu Kænugarð óvænt í gær. Þar funduðu þeir með Volodýmýr Zelenskí forseta.
- Nýr forseti Ungverjalands, Katalin Novak, fordæmdi innrás Rússa í Úkraínu þegar hún var sett í embætti í gær. Ríkisstjórn Ungverjalands hefur fram að þessu neitað að senda vopn til nágrannalandsins Úkraínu og er mótfallin fyrirhuguðu innflutningsbanni Evrópusambandsins á rússneska olíu. Novak er bandamaður Viktors Orban, forsætisráðherra. Hann hefur einnig fordæmt stríðið en forðast að gagnrýna Vladímír Pútín Rússlandsforseta persónulega.
- Á bilinu 500 til 1.000 bílar fluttu óbreytta borgara frá Maríupol, sem er að mestu á valdi Rússa, til Zaporizhzhia í gær. Iryna Vereshtjúk, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu, segir viðræður standa yfir við Rússa um brottflutning um sextíu alvarlegra særðra hermanna sem hafa haldið til í stálverksmiðju í borginni.
