Jafnöldrurnar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir (fæddar 2001) komu báðar inn í landsliðið haustið 2019 og stimpluðu sig strax inn. Þær eru núna lykilmenn í íslenska liðinu sem er á leið á sitt fjórða Evrópumót í sumar.
Þær Karólína og Sveindís bera eldri og reyndari leikmönnum íslenska liðsins afar vel söguna.
„Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að sjá hvað þær eru frábærar. Þær eru frábærir karakterar og magnaðar íþróttamanneskjur,“ sagði Karólína.
„Yngri kynslóðin er kannski með tæknilegu hliðina fram yfir eldri kynslóðina en það er magnað að horfa á þær og ekkert smá skemmtilegt að spila með þeim núna.“
Sveindís tekur í sama streng og Karólína og talar afar vel um eldri kynslóðina í íslenska liðinu.
„Það er geðveikt. Þær eru líka frábærar persónur. Ég hélt það yrði miklu erfiðara að komast inn í þetta og kynnast þeim,“ sagði Sveindís.
„Þær eru geðveikt skemmtilegar og hafa tekið vel á móti mér. Líka að æfa með þeim, það er ótrúlega hátt tempó á æfingum og maður vill ekki gera nein mistök. Þegar þú ert með góða leikmenn í kringum þig gengur alltaf miklu betur og maður lítur betur út.“
Sveindís og Karólína léku saman með Breiðabliki sumarið 2020 og urðu Íslandsmeistarar með liðinu. Eftir tímabilið sömdu þær báðar við þýsk félög; Sveindís við Wolfsburg og Karólína við Bayern München.
Þessi lið börðumst um þýska meistaratitilinn sem Sveindís og stöllur hennar unnu á endanum. Bayern varð hins vegar meistari á síðasta tímabili.