Fótbolti

Unai Emery um Liverpool-leikinn: Hefði getað endað mun verr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unai Emery gefur leikmönnum Villarreal fyrirskipanir á hliðarlínunni á Anfield í gær.
Unai Emery gefur leikmönnum Villarreal fyrirskipanir á hliðarlínunni á Anfield í gær. Getty/Jose Breton

Unai Emery, þjálfari Villarreal, fór ekkert í felur með það að lið hans hafi sloppið nokkuð vel frá Anfield í gærkvöldi þrátt fyrir 2-0 tap í fyrri undanúrslitaleiknum í Meistaradeildinni.

Liverpool var með algjöra yfirburði í leiknum en tókst þó bara að skora tvö mörk. Villarreal á því enn möguleika í seinni leiknum á heimavelli en þarf þá að gera eitthvað annað en að pakka í vörn eins og liðið gerði á Anfield í gær.

„Ég verð að viðurkenna að þetta hefði getið endað mun verr,“ sagði Unai Emery við Movistar Plus eftir leikinn.

„Við reyndum að sækja, að senda boltann og til að búa eitthvað til en þeir leyfðu okkur ekki að gera neitt. Síðasti möguleikinn okkar var að verjast til að halda okkur á lífi fyrir seinni leikinn,“ sagði Emery.

„Við verðum bara að vera auðmjúkir og reyna að gera seinni leikinn að allt öðrum leik. Við verðum að spila af meiri ákefð eins og við erum vanir,“ sagði Emery.

Villarreal var aðeins skugginn af því liði sem hafði slegið bæði Juventus og Bayern München út úr Meistaradeildinni. Nú er bara spurningin hvort að þetta hafi verið slæmur dagur eða hvort að mótherjarnir úr Liverpool séu bara of sterkir.

Yfirburðirnir voru rosalegir eins og sést á sláandi tölfræði úr leiknum hér fyrir neðan. Liverpool var 73 prósent leiktímans með boltann og skotin voru 18-1 Liverpool liðinu í hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×