City fer með forystu til Spánar eftir sjö marka leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bernardo Silva skoraði fjóðra mark City í kvöld.
Bernardo Silva skoraði fjóðra mark City í kvöld. James Williamson - AMA/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City fara með eins marks forskot inn í síðari leik liðsins gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir 4-3 sigur í hörkuleik kvöld.

Heimamenn í City byrjuðu af miklum krafti og leikurinn var rétt að verða tveggja mínútna gamall þegar Kvein De Bruyne kom liðinu yfir eftir stoðsendingu frá Riyad Mahrez.

Gestirnir frá Madríd áttu í stökustu vandræðum í upphafi leiks og Gabriel Jesus bætti öðru marki heimamanna við níu mínútum eftir það fyrsta og staðan því orðin 2-0 eftir rétt rúmlega tíu mínútna leik.

Madrídingar tóku þó við sér og komust betur og betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Þeir fengu nokkur álitleg færi að gjöf frá heimamönnum, en tókst ekki að nýta þau. Það var ekki fyrr en á 33. mínútu sem Karim Benzema minnkaði muninn fyrir gestina með góðu marki eftir fyrirgjöf frá Ferland Mendy.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik og staðan því 2-1, City í vil, þegar gengið var til búningsherbergja.

Phil Foden kom heimamönnum í tveggja marka forystu á nýjan leik með marki á 53. mínútu áður en Vinicius Junior minnkaði muninn aftur tveimur mínútum síðar.

Það var svo Bernando Silva sem skoraði fjórða mark Englandsmeistaranna þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka með góðu skoti á nærstöngina.

Þessi tveggja marka forysta City lifði þó ekki lengi frekar en áður í leiknum því á 80. mínútu handlék Aymeric Laporte knöttinn innan eigin vítateigs og vítaspyrna dæmd. Karim Benzema fór á punktinn og ískaldur vippaði hann boltanum á mitt markið og horfði á Ederson skutla sér út að stöng.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og niðurstaðan varð því 4-3 sigur Manchester City. Englandsmeistararnir eru því með eins marks forystu fyrir síðari leikinn sem fram fer í Madríd á miðvikudaginn eftir rúma viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira