Sem þýðir að fólk sem er í stjórnendastöðum þarf einfaldlega að huga betur að skapinu sínu alla daga en aðrir.
Sem þó þurfa að huga vel að sínu skapi og líðan.
Munurinn er sá að það er skap stjórnandans og hegðun sem hefur mestu áhrifin á starfsfólkið í heild sinni.
Yfirmaður sem mætir þungur í skapi í vinnuna hefur miklu meiri áhrif á líðan starfsfólks síns heldur en Pétur eða Páll sem stundum fara öfugt fram úr á morgnana.
Á ensku er talað um „emotional contagion“ áhrif stjórnenda á starfsfólk. Sem þýðir tilfinningasmit stjórnenda til starfsfólks.
Og það hvernig skap stjórnandans hefur áhrif á starfsfólk og teymi, getur skipt sköpum þegar kemur að árangri, drifkrafti, starfsánægju, líðan starfsfólks og frammistöðu almennt.
Í umfjöllun Fastcompany er um þetta tilfinningasmit rætt með tilvísun í enska orðatiltækið „leaders bring the weather,“ eða ,,leiðtogar koma með veðrið með sér.
Hér eru nokkur ráð fyrir stjórnendur.
Hvernig ertu í dag?
Sem yfirmaður mun skapið þitt í dag hafa áhrif á marga aðra í vinnunni. Alla morgna þarftu því að byrja á því að taka hreinlega stöðuna á sjálfum þér: Hvernig ertu? Hvernig líður þér?
Eitt af því góða sem þessi daglega venja skilar er ekki bara aukin meðvitund fyrir vinnudaginn framundan, heldur er þetta líka einföld leið til að taka stöðu hjá þér sjálfum á streitu eða kulnunareinkennum.
Hresstu þig við
Við eigum öll okkar ólíku daga. Einn daginn gætum við verið stressuð og utan við okkur vegna þess að við erum í kappi við tímann með einhver verkefni eða fórum of seint að sofa í gær.
En sem yfirmaður hefur þú áhrif á hópinn og skref tvö felst því hreinlega í því að hressa sig við, draga andann djúpt og taka ákvörðun um að vera í góðu skapi þegar þú mætir til vinnu.
Annað er ekki í boði.
Líkamstjáningin
En starfsfólk er fljótt að átta sig á því ef brosið nær ekki til augnanna eða yfirmaður reynir að vera hress en er utan við sig og stressaður.
Og hvað er til ráða þá?
Jú, við getum staðið okkur betur í þessu ef við erum meðvituð um alla okkar líkamstjáningu. Allt frá því hvernig við stöndum, sitjum, hreyfum okkur eða brosum. Starfsfólk sem sér að yfirmaðurinn er afslappaður í framkomu og líkamstjáningu líður betur.
Jákvæð orka, jákvæð nærvera
Sem yfirmaður ertu að vinna að því alla daga að vinnustaðurinn þinn eða teymið nái sem bestum árangri. Jafnvel framúrskarandi.
Sem þýðir að þú vilt hafa jákvæð áhrif á móralinn, drifkraftinn og góða starfsandann í vinnunni.
Að efla og byggja upp jákvætt andrúmsloft á vinnustað eða í teymum tekst best ef yfirmaðurinn er fyrirmyndin af því að gefa frá sér jákvæða orku, hafa jákvæða nærveru og stuðla að því alltaf að byggja upp góðan móral.
Neikvæðni er ekki í boði. Hvað þá að vera fúll.
Þú
En er í alvörunni hægt að gera þá kröfu að fólk í stjórnendastöðum standi undir þessum kröfum alla daga?
Já, það er hægt en aðeins þó ef stjórnandinn sjálfur hugsar vel um sjálfan sig líka. Því það að vera í góðu skapi í vinnunni alla daga, sýna engin streitumerki sama hvað gengur á, vera alltaf afslappaður í fasi og framkomu og brosa hverja stund til augnanna er hreinlega ekki hægt nema….yfirmanninum líði vel!
Að taka að sér stjórnendastarf er krefjandi og spennandi verkefni. En oft gleymist að það er einmitt þá sem allir þurfa að vera mjög meðvitaðir um að allt sem heitir að huga að sjálfum sér skiptir jafnvel enn meira máli en áður.
Allt frá góðum svefn yfir í aðra sjálfsrækt. Hvort sú sjálfsrækt felst í hreyfingu, hugleiðslu, markþjálfun, hjá sálfræðingi eða öðru er undir hverjum og einum að velja.
Aðalmálið er að til þess að hafa sem bestu smitáhrifin á starfsfólk og teymi þarf yfirmaður að leggja rækt við sjálfan sig og líta á það sem lykilatriði til að standa sig vel í starfi.