Í gær var hundraðasti dagurinn og ákvað Gústi að því tilefni að taka Sveppadýfuna frægu sem sló í gegn síðasta sumar. Sveppi, fullu nafni Sverrir Þór Sverrisson, tók Gústa í kennslu og tóku þeir svo dýfuna saman.
„Ég hef verið ótrúlega heppinn með frábært fólk sem hefur verið til í að koma fram í TikTok-unum mínum en á meðal þeirra eru Herra Hnetusmjör, Steindi, Reykjavíkurdætur, Páll Óskar, Auðunn Blöndal, Sólborg Guðbrands, Siggu Kling, Örn Árnason, Björgvin Franz, Jón Gnarr, Clubdub og fullt af áhugaverðu fólki,“ segir Gústi í samtali við Lífið.
„Ég hef náð öllum þeim markmiðum á TikTok sem ég lagði upp með í byrjun og nú taka önnur spennandi verkefni við í framhaldinu. Að því sögðu er ég að taka mér smá pásu og því er hundraðasta myndbandið það síðasta í þessari röð.“

Hann er þó alls ekki hættur að gera myndbönd en mun gera mun minna af þeim.
„Að gera metnaðarfullt myndband á hverjum einasta degi ásamt öllum hinum verkefnunum sem ég hef verið að gera hefur tekið sinn toll. Það hefur bitnað á öðrum sviðum í mínu lífi og nú verður geggjað að fá smá hvíld og einbeita sér að öðru,“ útskýrir Gústi.
„Nú fer ég aftur í það að talsetja teiknimyndir, koma fram sem plötusnúður, hjálpa fyrirtækjum að reka samfélagsmiðla og njóta lífsins. Reynslan sem öll myndbandagerðin hefur gefið mér er ómetanleg. Það eru mörg spennandi verkefni framundan hjá mér og stór tilkynning væntanleg á næstu dögum,“ segir Gústi að lokum.
Dýfu Sveppa og Gústa má sjá hér fyrir neðan.