Þrátt fyrir að leikur Danmerkur og Serbíu hafi í raun verið þýðingarlítill vináttulandsleikur var augljós gleði meðal viðstaddra fyrir leik. Christian Eriksen var að snúa aftur á sama völl og hann hné niður á fyrir tæplega tíu mánuðum og ekki minnkaði gleðin þegar leikmaðurinn skoraði þriðja mark danska liðsins á 57. mínútu.
Christian Eriksen leads out Denmark as captain on his return to Parken Stadium, the venue where he suffered cardiac arrest at the Euros last year 👏 pic.twitter.com/IXRgKVwmJR
— B/R Football (@brfootball) March 29, 2022
Eriksen ræddi við fjölmiðla eftir leik og sagði að það væri einstök tilfinning að leiða liðið út á völlinn í leik sem þessum.
„Þetta er ekki lokakaflinn, heldur er þetta bara byrjunin á fótboltaferli sem heldur áfram,“ sagði Eriksen að leikslokum. „Þetta var smá pása í nokkra mánuði, en nú snýst þetta um að koma fótboltanum aftur í gang.“
„Þetta var í fyrsta skipti sem ég er fyrirliði og geng út á þennan völl. Ég hef verið fyrirliði áður, en ekki hér. Að ganga út á þjóðarleikvanginn sem fyrirliði í fyrsta skipti var einstakt.“
„Það að leiða strákana út var mjög tilfinningaþrungið og eitthvað sem ég get verið stoltur af. Þetta var yndisleg tilfinning,“ sagði Eriksen meyr að lokum.