Íslenski boltinn

Helena: Steini opnaði örugg­­lega kampa­vínsflösku þegar hann sá Elínu Mettu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen á ferðinni í leik með Valsliðinu.
Elín Metta Jensen á ferðinni í leik með Valsliðinu. Visir/Vilhelm

Elín Metta Jensen var fljót að stimpla sig inn þegar hún kom inn á völlinn í sigri Valskvenna á Þór/KA í Lengjubikar kvenna um helgina.

Mikil umræða skapaðist um Elínu Mettu á dögunum þar sem sumir voru að velta því fyrir sér hvort að þessi frábæra knattspyrnukona væri hætt í fótbolta enda á fullu í læknisnámi með boltanum.

Elín Metta vildi lítið segja nema að það að hún væri ekki hætt. Hún sýndi það síðan í verki í leiknum um helgina þegar hún skoraði tvö mörk eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Það tók hana bara fjórar mínútur að skora.

Lengjubikarmörk kvenna sýndu mörkin tvö hjá Elínu Mettu og ræddu endurkomu hennar.

Klippa: Lengjubikarmörkin: Elín Metta mætti aftur með stæl

„Elín Metta kemur inn á í síðari hálfleik og setur tvö mörk. Steini hlýtur að hafa opnað eina kampavínsflösku í gær þegar hann horfði á leikinn sem ég var að lýsa,“ sagði Helena Ólafsdóttir um innkomu Elínar Mettu. Elín er ekki aðeins mikilvæg fyrir Val heldur einnig fyrir íslenska kvennalandsliðið sem er að fara á Evrópumótið í Englandi í sumar.

Sérfræðingarnir skutu þá aðeins á þáttarstjórnandann sem var þó að auðvitað að tala um að Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, hafi fagnað endurkomu Elínar en ekki sérstaklega lýsingu hennar.

„Hann hlýtur að hafa glaðst mjög þegar hann sá Elínu Mettu koma þarna inn,“ sagði Helena. Elín kom inn á 56. mínútu og skoraði síðan á 60. og 82. mínútu.

Vísir/Vilhelm

„Já, ég held það og ég held að við öll sem erum stuðningsfólk íslenska landsliðsins höfum glaðst yfir þessu. Það tók hana fjórar mínútur að minna á sig og er hún bara þannig týpa, að eftir þessa umræðu, verður hún ekki bara langbest í sumar?“ sagði Mist Rúnarsdóttir.

„Hún er svo mikil keppniskona og ég held að hún vilji alveg troða sokk upp í marga. Það var svolítið búið að afskrifa hana og ákveða þetta fyrir hana en það verður spennandi að sjá hvað Elín gerir,“ sagði Helena.

Það má sjá mörkin og umfjöllunina hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×