Sport

Elsa varði Evrópumeistaratitil sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elsa Pálsdóttir byrjaði að keppa í kraftlyftingum árið 2019.
Elsa Pálsdóttir byrjaði að keppa í kraftlyftingum árið 2019. IPF

Elsa Pálsdóttir varð í dag Evrópumeistari í klassískum kraftlyftingum í -76kg flokki M3 en Evrópumót öldunga stendur nú yfir í Litháen.

Elsa er 61 árs kraftlyftingakona úr Garðinum og hefur heldur betur komið sterk inn í kraftlyftingarnar síðustu ár. Hún hefur bara æft kraftlyftingar í þrjú ár eftir að hafa keppt fyrst í greininni árið 2019.

Elsa lyfti 125 kílóum í hnébeygju, 60 kílóum í bekkpressu, 155 kílóum í réttstöðulyftu og þar með fóru upp 340 kíló samanlagt í dag.

Hún vann gullverðlaun í öllum greinum og var þar af leiðandi langstigahæsta konan í M3. Þetta var því mjög öruggur sigur hjá henni.

Elsa varði með þessu Evrópumeistaratitil sinn frá því í Tékklandi í júlí i fyrra. Elsa keppti þá eins og núna í -76 kg þyngdarflokki í aldurshópnum 60–69 ára. Hún varð einnig heimsmeistari í fyrra.

Elsa náði þó ekki að bæta heimsmetin sína frá því á Reykjavíkurleikunum þar sem hún lyfti 137,5 kílóum í hnébeygju, 162,5 kílóum í réttstöðulyftu og alls 362,5 kílóum samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×