Brot úr þætti kvöldsins má sjá hér að neðan, þar sem þeir Sigurður Orri Kristjánsson og Hörður Unnsteinsson skoða meiðsli Anthony Davis og Chris Paul.
Davis meiddist þegar ökkli hans snerist illa undir hann eins og hægt er að sjá í vídjóinu hér að ofan.
„Ég á erfitt með að horfa á þetta,“ viðurkennir Hörður sem segir fyrst og fremst leiðinlegt fyrir Davis sjálfan að vera enn að meiðast.
„Þetta eru 4-5 vikur, og jafnvel meira. Þetta er ofboðslega leiðinlegt fyrir Anthony Davis, um leið og hann er að komast á strik. Við sjáum það líka á svipnum á LeBron [James],“ segir Hörður.
Besta lið deildarinnar, Phoenix Suns, þarf sömuleiðis að spjara sig án lykilmanns á næstunni:
„Chris Paul, besti leikmaðurinn í besta liðinu, brotnaði í hendi í og verður frá í 4-8 vikur,“ segir Sigurður Orri en þeir félagar höfðu gaman af látunum í Paul sem lét reka sig af velli þegar hann meiddist. Paul ætti að vera klár fyrir úrslitakeppnina:
„Þetta getur haft mikil áhrif á Phoenix Suns liðið. Vissulega ekki þannig að þeir detti eitthvað úr fyrsta sætinu, því þeir eru með það gott forskot þar og það gott lið, en að fá þessi meiðsli rétt fyrir úrslitakeppnina getur skaðað ryþmann hjá þeim, komandi inn í úrslitakeppnina,“ segir Hörður en umræðuna má sjá hér að ofan.
Lögmál leiksins er vikulegur þáttur um NBA-deildina sem er sýndur á mánudögum á Stöð 2 Sport 2. NBA-deildin er hluti af Sport Erlent sem kostar kr. 3.990 á mánuði. Smelltu hér til að kaupa áskrift.