Vegagerðin boðaði til opins fundar á föstudaginn í Hótel Selfossi um fyrirhugað útboð á samvinnuverkefninu ný brú yfir Ölfusá. Brúin verður glæsilegt mannvirki, stagbrú með stórum turni og 330 metra löng.
Reiknað er með að um fjögur til fimm þúsund bílar munu fara yfir brúnna á sólarhring fyrsta árið. Núverandi brú við Ölfusá verður áfram í notkun en umferð þyngri ökutækja verður ekki leyfð á þeirri brú enda er hún orðin gömul og lúin.

„Já, núna erum við að hefja útboðsferli um að finna framkvæmdaaðila, sem er tilbúin að byggja þessa brú og fjármagna, þannig að við erum bara á góðum stað með það. Ég vonast til að það verði mikill áhugi á verkefninu, þetta er jú stórt verkefni en auðvitað er ekki komið að því að byggja alveg strax en þetta er ferli, sem tekur næstu mánuði að finna áhugasama aðila og allt það,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni.

Nýja brúin verður 19 metra breið með þremur akreinum og göngu og hjólastíg. Turninn verður 60 metra hár. Bannað verður að fara ríðandi á hestum yfir brúnna.
„Það er mjög ánægjulegt að við skulum loksins sjá hylla undir það að brúin fer af stað því hún þyrfti sannarlega að vera komin nú þegar,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg.

Það á alveg eftir að ákveða hvert gjaldið verður að aka yfir nýju brúnna. Forstjóri Vegagerðarinnar nefndi 400 krónur á fundinum en hvað segir Gísli bæjarstjóri?
„Til þess að ég geti nýtt hana í mínu daglega lífi þá myndi ég helst vilja að við værum að tala um hundrað kallinn, það er að segja að hver ferð kosti 100 krónur.“
