„Jæja, eftir rúmlega tveggja ára heimsfaraldur náði veiran loks í skottið á mér. Hef haft það betra en vona að ég nái þessu fljótt úr mér. Suðurlandið er aftur á móti við hestaheilsu og skartar sínu fegursta fyrir utan gluggann,“ segir Sigurður Ingi.
Meirihluti ríkisstjórnarinnar hefur greinst með Covid-19. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var fyrstur þann 27. desember og í framhaldinu greindust Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra smitaðist á EM í handbolta í Ungverjalandi í janúar. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra greindist við komuna til landsins úr fríi fyrir þremur vikum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindist í síðustu viku og nú er Sigurður Ingi sjöundi ráðherrann til að greinast.