Innherji

Einkageirinn standi í erfiðri samkeppni við hið opinbera um fólk

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hannes

Ráðgjafi stjórnar Samtaka atvinnulífsins segir einkageirann hafa skroppið saman á meðan hið opinbera þenjist út. Í liðinni viku birti Hagstofan bráðabirgðatölur um þróun starfsmannafjölda og heildarlaunagreiðslna árið 2021. Á tímabili kórónukreppunnar er heildarniðurstaðan sú að starfandi fólki fækkaði um 4 prósent og heildarlaunagreiðslur, eða launasumman, dróst saman um 4 prósent milli áranna 2019 og 2021.

Launasumman í opinbera geiranum hækkaði hins vegar um 21 prósent en í einkageiranum um 2 prósent. Starfandi fólki fjölgaði um 7 prósent í opinbera geiranum en fækkaði um 8 prósent í einkageiranum á tímabilinu.

„Á þessum tíma hafa þúsundir starfsmanna sem áður störfuðu í einkageiranum hafið störf hjá hinu opinbera. Í ljósi góðra launa og annarra kjara hjá hinu opinbera er erfitt fyrir einkageirann að ná þessu starfsfólki til baka,” segir Hannes Sigurðsson, ráðgjafi stjórnar SA.

SA skoðuðu þróunina í einka- og opinbera geiranum síðastliðin ár en hún var gerólík. Opinberi geirinn er í úttekt SA námundaður með atvinnugreinunum opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi  heilbrigðis - og félagsþjónusta og einkageirinn er námundaður með öllum öðrum atvinnugreinum.

Á þessum tíma hafa þúsundir starfsmanna sem áður störfuðu í einkageiranum hafið störf hjá hinu opinbera. Í ljósi góðra launa og annarra kjara hjá hinu opinbera er erfitt fyrir einkageirann að ná þessu starfsfólki til baka

Niðurstaða þessarar nálgunar SA á skiptingu geiranna er sú að launasumma í opinbera geiranum hækkaði um 21 prósent en í einkageiranum aðeins um 2 prósent. Starfandi fólki fjölgaði um 7 prósent í opinbera geiranum en fækkaði um 8 prósent í einkageiranum milli áranna 2019-2021.

Opinberi geirinn er í úttekt SA námundaður með atvinnugreinunum opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi heilbrigðis - og félagsþjónusta og einkageirinn er námundaður með öllum öðrum atvinnugreinum.

Náttúruleg fjölgun fólks á vinnualdri lítil sem engin

Hannes segir þessa starfafjölgun hjá hinu opinbera ekki tímabundna heldur varanlega. „Fjölgunin er ekki vegna kórónukreppunnar, nema ef til vill að örlitlu leyti. Nú stendur einkageirinn einfaldlega frammi fyrir því að manna hagvöxt þessa árs og næstu ára,” segir Hannes frá.

Einkageirinn sé í erfiðri samkeppni um starfsfólk við hið opinbera. „Fólk flytur sig ekki um set nema talsvert betri kjör bjóðist.”

Á sama tíma sé fjölgun íslensks starfsfólks mjög lítil, mun minni en íslenskur vinnumarkaður hefur átt að venjast síðustu áratugi. 

„Náttúruleg fjölgun fólks á vinnualdri er með öðrum orðum lítil sem engin. Viðbrögð einkageirans verða þau að flytja inn starfsfólk. En það getur reynst þungt í vöfum því um er að ræða þörf fyrir sérmenntað og langskólagengið fólk. Spurning er hvort umhverfið sé nægilega aðlaðandi fyrir slíkt starfsfólk,” segir Hannes og veltir upp hvort ekki verði að leita til svæða utan EES svæðisins, annarra heimshluta.

Viðbrögð einkageirans verða þau að flytja inn starfsfólk. En það getur reynst þungt í vöfum því um er að ræða þörf fyrir sérmenntað og langskólagengið fólk. Spurning er hvort umhverfið sé nægilega aðlaðandi fyrir slíkt starfsfólk

Ríki og sveitarfélög verði að halda sig til hlés

Í úttekt SA er einkageiranum skipt í þrennt, það er í framleiðslugreinar, ferðaþjónustu og þjónustugreinar að ferðaþjónustu frátalinni.

Þar kemur enn fremur í ljós hversu gerólík þróunin var á milli hins opinbera og einkageirans.

Launasumma og starfsmannafjöldi í ferðaþjónustunni minnkaði um tæpan þriðjung á meðan að launasumma hækkaði um 8-9 prósent en starfsfólki fækkaði um 2-3 prósent í framleiðslugreinum og annarri þjónustu en ferðaþjónustu.

Hlutdeild opinbera geirans, eins og hann er skilgreindur af SA, jókst úr 30 prósent í 33 prósent hvað varðar fjölda starfsfólks og úr 29 prósent í 32 prósent í launagreiðslum í landinu á þessu tímabili.

„Ein augljós niðurstaða þessarar þróunar er að ríki og sveitarfélög verða að halda sig til hlés á komandi árum til að gefa einkageiranum rými,” segir Hannes að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×