Pogba meiddist í nára þegar hann var með franska landsliðinu í nóvember en Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri United, sagði á blaðamannafundi í dag að Pogba yrði í leikmannahópnum á morgun og meira að segja mögulega í byrjunarliðinu.
Jesse Lingard verður hins vegar ekki með United en hann bað um frí fram á mánudag til að hreinsa hugann eftir því að hafa virst nálægt því að fara að láni til Newcastle. Nú þegar ljóst er að Mason Greenwood spilar ekki með United á næstunni, þar sem hann sætir lögreglurannsókn vegna gruns um heimilisofbeldi, er meiri þörf en áður fyrir Lingard.
„Hann fór ekki, vegna þess að við lentum í vandamáli með Mason Greenwood. Einnig vegna þess að félagið komst ekki að samkomulagi við annað félag,“ sagði Rangnick.