Menning

„Að fljóta inn í það óljósa“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Dýrfinna Benita á sýningu sinni Temprun í Gallerí Þulu.
Dýrfinna Benita á sýningu sinni Temprun í Gallerí Þulu. Aðsend

Listakonan Dýrfinna Benita Basalan opnar sýninguna Temprun í Gallerí Þulu á morgun, laugardaginn 5. febrúar.

Dýrfinna hefur sérhæft sig bæði í myndlist og tónlist en hún útskrifaðist með BA gráðu úr myndlist árið 2018 frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam 2018. Eftir að hún flutti heim hefur hún unnið við ýmis listræn verkefni og stofnaði einnig listhópinn Lucky 3 ásamt Darren Mark og Melanie Ubaldo. Blaðamaður ræddi við Dýrfinnu um sýninguna, innblásturinn og lífið.

Að sitja með tilfinningum sínum

„Þessi sýning heitir Temprun eða Tempered, fólk getur lesið í það eins og það vill en fyrir mér er sýningin mjög mikið um að einangra sig og hugleiða, eins og hefur verið mikið rætt um í samfélaginu. 

Sýningin er um það að sitja með tilfinningum sínum, melta þær, horfa á sjálfan sig og vera í óvissu. 

Allt er rosa óljóst,“ segir Dýrfinna en hún notast við fjölbreyttan og áhugaverðan efnivið í listsköpun sinni. „Það er það sem mér finnst skemmtilegt við t.d. Airbrush-ið sem ég er búin að vera að vinna mjög mikið með undanfarið. Það er svo mikið loft í því og skapar þennan gráa tón. Að leika mér með svart, hvítt og þennan milliveg sem er út úr fókus, sem maður nær ekki alveg að graspa.

Hún segir að þrátt fyrir að sýningin sé þessi upplifun fyrir henni vilji hún að fólk geti komið og fundið fyrir eigin tilfinningum.

Logsuðan og undirmeðvitundin

Listrænn áhugi Dýrfinnu kom snemma fram og hefur hún farið ótroðnar slóðir. „Ég hef verið mjög mikið að mála og teikna yfir ævina, svo byrjaði ég að gera tónlist. En í Covid fór ég að leika mér meira með stál og fannst skemmtilegt að geta blandað því saman, stálinu og teikningunni. Ég teikna með logsuðunni á stálverk,“ segir Dýrfinna og bætir við að það sé ómögulegt að vinna nákvæmnisvinnu í því ferli. Þegar verið er að logsjóða þarf nefnilega að vera með grímu og ómögulegt er að sjá hvað er að gerast.

„Þess vegna þarf maður að fylgja tilfinningunni, það sem maður heldur að eigi að gerast, og undirmeðvitundin leiðir mann áfram.“

Dýrfinna segir mikilvægt að hafa setið með þeirri tilfinningu sem kom upp hverju sinni í sköpunarferlinu og það endurspegli sýninguna. „Ef ég var sorgmædd eða hress þá var það tilfinningin sem ég staldraði við í.“ Alheimsfaraldurinn hafði áhrif á tenginguna við tilfinningarnar og fékk eflaust marga til að staldra betur við.

„Með Covid og öllu þessu þá líður mér eins og það sé meiri vitundarvakning um andlega heilsu og jafnvægi því við gátum loksins séð hvernig það var að vera heima og hugsað „Ok, hvað eigum við að gera?“ Mér finnst eins og þessi sýning sé svolítið útkoman á því.“

Ekkert er svart á hvítu

Dýrfinna segir gráu tóna verka sinna spila veigamikið hlutverk þar sem það er ekkert svart á hvítu í lífinu. Gráu tónarnir samþykkja tilfinningarnar skilyrðislaust og það þarf ekki alltaf að vita allt en Dýrfinna glímir við Borderline Personality Disorder og upplifir stundum að vita ekki nákvæmlega hvernig henni líður.

„Og það er líka bara allt í lagi og maður þarf stundum að sætta sig við það - og þá líður það bara hjá. 

Það er mikilvægt að sleppa tökunum, að þurfa ekki alltaf að stjórna öllu og vita allt, heldur bara fljóta í hið óljósa,“ 

segir listakonan að lokum.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.