Í heimildarmyndinni fá áhorfendur að fylgjast með gerð þáttanna og virðist stemningin hjá hópnum vera skemmtileg þar sem allir eru að koma saman í fyrsta skipti í mörg ár. Aðalleikkonurnar þrjár voru spenntar að fara aftur í gömlu hlutverkin sín ásamt því að sinna stórum hlutverkum fyrir aftan myndavélina og í stiklu fyrir myndina sést Sarah Jessica Parker sem leikur Carrie Bradshaw segja
„Jafnvel eftir 23 ár er ég spennt. Hrædd en spennt.“
Í myndinni verður gefin innsýn í hvernig þættirnir eru skrifaðir, tískuna og tökuferlið. Það verða viðtöl við alla aðalleikara þáttanna og Willie Garson sem lék Stanford Blatch sést einnig í stiklunni en hann féll frá í september á meðan á tökum stóð.
Chris North sem fer með hlutverk Mr. Big er hvergi sjáanlegur en nýlega kom fram fjöldi kvenna sem sökuðu hann um kynferðislegt ofbeldi. Í kjölfar þeirra ásakana komu Sarah Jessica Parker, Cynthia Nixon og Kristen Davis með sameiginlega yfirlýsingu þar sem þær lýstu yfir stuðningi við þolendur ofbeldis.