Körfubolti

Þriðji Þórsarinn sem þarf að fara heim vegna meiðsla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jérémy Landenbergue fær aðhlynningu eftir að hafa meiðst gegn KR.
Jérémy Landenbergue fær aðhlynningu eftir að hafa meiðst gegn KR. vísir/bára

Meiðslaófarir karlaliðs Þórs Ak. í körfubolta virðast engan enda ætla að taka. Svisslendingurinn Jérémy Landenbergue er farinn frá liðinu eftir að hafa slitið krossband í hné í leik gegn KR 16. desember.

Þegar rúmar sex mínútur voru eftir af 3. leikhluta stal Landenbergue boltanum og reyndi skot sem geigaði. Hann lenti illa og kom ekkert meira við sögu í leiknum sem KR vann, 83-74. Þetta var síðasti leikur Landenbergues fyrir Þór.

Klippa: Jérémy Landenbergue meiðist

„Hér er á ferðinni góður drengur sem mikil eftirsjá er af. Leiðinlegt að hann náði aldrei að sýna liðinu né stuðningsmönnum hvað býr í honum. Við þökkum honum kærlega fyrir allt og óskum honum skjóts og góðs bata og velfarnaðar,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, á heimasíðu félagsins.

Mikil meiðsli hafa herjað á Þórsara í vetur. Írinn Jordan Blount og Bandaríkjamaðurinn Jonathan Lawton þurftu báðir að fara heim vegna meiðsla.

Þá lenti annar Svisslendingur, Eric Founge, í alvarlegu bílslysi en mætti samt á æfingu daginn eftir.

Í fjórum leikjum í Subway-deildinni í vetur er Landenbergue með 10,0 stig og 3,3 fráköst að meðaltali.

Þór er án stiga á botni Subway-deildarinnar. Næstu tveir leikir liðsins eru á heimavelli, gegn Grindavík 6. janúar og Tindastóli fjórum dögum síðar. 


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×