Samtök íþróttafréttamanna hafa nú opinberað það hvaða tíu íþróttamenn fengu flest atkvæði í kjörinu á Íþróttamanni ársins fyrir árið 2021 en eins eru þrír tilnefndir sem þjálfari ársins 2021 og þrjú lið sem lið ársins 2021.
Íþróttamaður ársins verður valinn miðvikudaginn 29. desember næstkomandi. 29 meðlimir úr Samtökum íþróttafréttamanna tóku þátt í kjörinu að þessu sinni og konurnar í samtökunum eru fimm að þessu sinni. Sjálft hófið fer ekki fram með hefðbundnum hætti í ár vegna samkomutakmarkanna en kjörið verður í beinni útsendingu 29. desember á RÚV.
Þetta verður í 66. sinn sem Íþróttamaður ársins er útnefndur af Samtökum Íþróttafréttamanna en fyrstur til að hljóta þessa viðurkenningu var Vilhjálmur Einarsson árið 1956 en hann vann það ár silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu.
Ríkjandi Íþróttamaður ársins er knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir en hún var í barneignarfríi á árinu 2021 og eignaðist soninn Ragnar Frank í síðasta mánuði.
Eins og venjan er þá er topp tíu listinn kynntur á Þorláksmessu en valið síðan gert opinbert á milli jóla og nýárs.
Karlar eru áfram í meirihluta á topp tíu listanum eða sex af tíu en það er þó einni konu fleira á topp tíu listanum en undanfarin þrjú ár. Það hafa því ekki verið fleiri konur á topp tíu síðan árið 2017.
Hópíþróttafólk er líka í miklu meiri hluta en aðeins tveir íþróttamenn úr einstaklingsgreinum komast á topp tíu listann í ár en það eru kraftlyftingafólkið Kristín Þórhallsdóttir og Júlían J.K. Jóhannsson.
Handbolti er sú íþróttagrein sem á flesta fulltrúa inn á topp tíu listanum eða fjóra og hefur aldrei átt fleiri á einu ári. Það voru líka fjórir úr handbolta á topp tíu árin 1960, 1973, 1987, 2008 og 2010.
Þrjú af tíu á listanum yfir besta íþróttafólk ársins var einnig á topp tíu listanum í fyrra. Þau sem voru einnig á listanum í fyrra eru Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson og Martin Hermannsson.
Sex eru aftur á móti algjörir nýliðar í hópi þeirra tíu bestu eða það eru þau Kári Árnason, Kolbrún Þöll Þorradóttir, Kristín Þórhallsdóttir, Ómar Ingi Magnússon, Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir.
- Tíu efstu í kjöri Íþróttamanns ársins 2021 í stafrófsröð:
- Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Álaborg í Danmörku
- Bjarki Már Elísson, handboltamaður hjá Lemgo í Þýskalandi
- Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður úr Ármanni
- Kári Árnason, fótboltamaður í Víkingi R.
- Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona í Stjörnunni
- Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingakona úr ÍA
- Martin Hermannsson, körfuboltamaður í Valencia á Spáni
- Ómar Ingi Magnússon, handboltamaður í Magdeburg í Þýskalandi
- Rut Arnfjörð Jónsdóttir, handboltakona í KA/Þór
- Sveindís Jane Jónsdóttir, fótboltakona í Kristianstad í Svíþjóð
- Þrjú efstu liðin í stafrófsröð:
- Ísland, kvennalandslið í hópfimleikum
- KA/Þór, mfl. kvenna í handbolta
- Víkingur R., mfl. karla í fótbolta
- Þrír efstu þjálfararnir í stafrófsröð:
- Arnar Gunnlaugsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Víkingi í fótbolta
- Vésteinn Hafsteinsson, kastþjálfari í frjálsíþróttum
- Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta
Aron Pálmarsson er á topp tíu listanum í níunda skiptið og Martin Hermannsson er þar í fimmta sinn. Bjarki Már Elísson er á listanum í annað skiptið.
Kári Árnason og Kristín Þórhallsdóttir setja bæði met með því að vera tilnefnd. Kristín er elsta konan sem kemst á topp tíu listann. Hún slær þar met knattspyrnukonunnar Ástu B. Gunnlaugsdóttur og golfkonunnar Ragnhildur Sigurðardóttir sem báðar voru 33 ára þegar þær voru tilnefndar, Ásta árið 1994 og Ragnhildur árið 2003. Ásta er fædd fyrr á árinu og átti því í raun metið þar til að Kristín tekur það af henni núna.
Kári er síðan elsti knattspyrnumaður sögunnar til að komast á topp tíu listann en hann slær þar met Guðna Bergssonar um tvö ár. Kári er 39 ára en Guðni var 37 ára þegar hann var tilnefndur árið 2002.
Þjálfarnir sem koma til greina sem þjálfari ársins eru Arnar Gunnlaugsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Víkingi í fótbolta, Vésteinn Hafsteinsson, kastþjálfari í frjálsíþróttum og Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. Þórir gerði Noreg að heims- og Evrópumeisturum, kringlukastarar undir stjórn Vésteins unnu gull og silfur á Ólympíuleikunum í Tókýó og Arnar varð fyrsti þjálfarinn til að gera Víkinga að Íslandsmeisturum í þrjátíu ár en liðið vann auk þess tvöfalt.
Liðin sem koma til greina sem lið ársins eru Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum, lið KA/Þór í handbolta kvenna og lið Víkings R. í fótbolta karla. Hópfimleikaliðið varð Evrópumeistari en bæði KA/Þór og Víkingur unnu tvöfalt.
Topp tíu listinn 2021:
Aron Pálmarsson, 31 árs handboltamaður hjá Álaborg í Danmörku

Bjarki Már Elísson, 31 árs handboltamaður hjá Lemgo í Þýskalandi

Júlían J. K. Jóhannsson, 28 ára kraflyftingamaður úr Ármanni

Kári Árnason, 39 ára fótboltamaður í Víkingi

Kolbrún Þöll Þorradóttir, 22 ára fimleikakona úr Stjörnunni

Kristín Þórhallsdóttir, 37 ára kraftlyftingakona úr ÍA

Martin Hermannsson, 27 ára körfuboltamaður í Valencia á Spáni

Ómar Ingi Magnússon, 24 ára handboltamaður hjá Magdeburg í Þýskalandi

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, 31 árs handboltakona hjá KA/Þór

Sveindís Jane Jónsdóttir, 20 ára knattspyrnukona hjá Kristianstad í Svíþjóð
