Sport

Evrópu­meistarinn: Fyrst heim að knúsa börnin og svo bara dýra­lækningarnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Þórhallsdóttir í viðtalinu við Rikka G í gær.
Kristín Þórhallsdóttir í viðtalinu við Rikka G í gær. Skjámynd/S2 Sport

Evrópumeistarinn okkar stoppaði hjá Rikka G á leið sinni frá flugvellinum og heim í Borgarfjörðinn eftir frábært Evrópumót hjá henni í Västerås í Svíþjóð um helgina.

Kristín Þórhallsdóttir braut blað í sögu kraftlyftinga á Íslandi um helgina þegar hún varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna Evrópumeistaratitil í þríþraut.

Kristín vann þá Evrópumeistaratitill á EM í klassískum kraftlyftingum þar sem hún vann allar þrjár greinar og svo samanlagt líka. Uppskeran var að auki tvö Evrópumet og fjögur Íslandsmet.

Kristín talaði um það fyrir mótið að hún ætlaði sér titilinn og stóð síðan heldur betur við stóru orðin.

Kristín vann yfirburðasigur í sínum þyngdarflokki sem var -84 kg flokkurinn. Alls fóru upp 560 kíló hjá henni samanlagt sem er nýtt Evrópumet í flokknum.

Kristín kom heim í gær og kom við hjá Ríkharði Óskari Guðnasyni áður en hún komst heim í Borgarfjörðinn.

„Ég náði Evrópumeti í hnébeygju og Evrópumeti samanlögðu sem er þá besti árangur í Evrópu hjá konu í þessum þyngdarflokki. Með þessum árangri skilst mér, þó að það sé ekki búið að gefa það formlega út þá sé ég kominn í annað sætið á heimslistanum í flokknum. Þannig að þetta var bara virkilega gott held ég,“ sagði Kristín Þórhallsdóttir.

Hvað tekur nú við hjá Evrópumeistaranum í framhaldinu.

„Fyrst og fremst að komast heim í Borgarfjörðinn og hnúsa börnin mín og manninn minn og svoleiðis. Ég tek mér einn dag í frí og svo er það bara aftur í dýralækningarnar á miðvikudaginn held ég,“ sagði Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×