![](https://www.visir.is/i/43D15BDF6A0EAB422EF61EF518F424F82AA24143563FAECFA049FB54678326BF_713x0.jpg)
Hátæknifyrirtækið Controlant hefur gegnt lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni gegn COVID 19. Controlant þróaði hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast meðal annars með lyfjum í flutningi svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum.
„Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með íslensku sprotafyrirtæki leika lykilhlutverk í því að losa heimsbyggðina úr klóm heimsfaraldursins með vöktun á bóluefni Pfizer,” kemst einn dómnefndarmanna að orði.
Vöxtur Controlant, sem er að miklum meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta, hefur verið ævintýralegur og markaðsvirði fyrirtækisins liðlega fimmfaldast á einu ári. Þá hefur starfsmannafjöldinn margfaldast og stefnir í að vera um 300 talsins í árslok. Væntingar eru um að tekin verði enn stærri skref í uppbyggingu fyrirtækisins á komandi ári.
„Tíu ára þrotlaus vinna skilar sér svo í því að íslenskt fyrirtæki tekur þátt í að breyta og móta heimssöguna. Talandi um að vera rokkstjarna.”
![](https://www.visir.is/i/B137F8DAD07C24E738D69B421FA62F072BEF8252D16FF07551834A29658A6EBA_713x0.jpg)
Carbon Recycling International hefur þróað heildstæða tæknilausn til að framleiða metanól með endurvinnslu koltvísýrings. Mikil spurn er eftir tæknilausn fyrirtækisins sem hefur landað stórum samningum við kínverskar verksmiðjur á síðustu misserum.
Dómnefnd Innherja tilnefnir fyrirtækið í þessum flokki fyrir framlag þeirra til orkuskipta. „Fyrirtækið stefnir á skráningu í Noregi og ef allt gengur upp ætti að geta orðið leiðandi í sínum geira á alþjóðavísu,” segir í rökstuðningi dómnefndar.
„Gríðarlegur vöxtur hefur verið á verðmæti fyrirtækja sem bjóða upp á umhverfislausnir í Evrópu og í Bandaríkjunum. Carbon Recycling hefur alla burði til að gera stóra hluti,” kemur enn fremur fram frá dómnefndinni.
![](https://www.visir.is/i/79ACE5478035B8A0FB27530537B91C29BA1632F109AE39FC12A5146F0B386DAD_713x0.jpg)
Líftæknifyrirtækið Alvotech hyggur á skráningu félagsins í bandarísku kauphöllina NASDAQ á næsta ári og þá hefur einnig verið til skoðunar að skrá fyrirtækið á markað hér heima. Alvotech hefur þegar gert samninga um forsölu lyfja með samstarfssamningum við önnur stór lyfjafyrirtæki í yfir 60 löndum og hyggur á þróun fleiri lyfja, eftir að hafa klárað 60 milljarða fjármögnun á dögunum.
Eftir að hafa fjárfest fyrir meira en 100 milljarða í uppbyggingu og þróunarstarfi félagsins á undanförnum árum, sem hefur meðal annars skilað sér í rúmlega 500 störfum hér á landi, stendur Alvotech nú á tímamótum. Gangi áætlanir stjórnenda eftir gæti starfsemi fyrirtækisins orðið ein af lykilstoðum í útflutningstekjum Íslands þegar fram líða stundir.
„Það sem Róbert Wessman og félagar eru að setja upp í Vatnsmýrinni er einstakt og akkúrat það sem Ísland þarf á að halda,” kemur fram í rökstuðningi dómnefndar Innherja.
„Sumir höfðu ekki trú á Róberti, en útlit er fyrir að þeir hinir sömu þurfi að fara að éta hattinn sinn.”
Tilnefnt er til verðlauna í eftirfarandi flokkum og munu tilnefningarnar birtast á síðum Innherja á næstu dögum:
Kaupmaðurinn
Fyrirtæki eða einstaklingur sem vakið hefur athugli í rekstri og viðskiptum með vörur til einstaklinga og fyrirtækja.
Tækniundrið
Fyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir nýja tækni, tæknivæðingu, tækniforrit og/eða tækniþjónustu.
Spámaðurinn
Fyrirtæki eða einstaklingur sem þótt hefur framúrskarandi í mati og skýringum á til dæmis hagkerfinu, fjármagnsmörkuðum, atvinnugeirum og/eða stjórnmálum.
Rokkstjarnan
Bjartasta vonin í íslensku atvinnulífi. Fyrirtæki sem vakið hefur athygli og þykir líklegt til þess að vaxa og ná árangri.
Samfélagsstjarnan
Fyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir framlag til samfélagsins í formi stuðnings við til dæmis góðgerðarmál, jafnréttismál, íþrótta- og tómstundaiðkun, umhverfismál og þess háttar.
Jafnframt verða Viðskipti ársins 2021 tilkynnt auk Viðskiptamanns ársins. Þá verða veitt sérstök Heiðursverðlaun íslensks atvinnulífs.
![](https://www.visir.is/i/A0EE8C5A144E161B2031DCC06CDDFD2DCC77F6BA56722CC270F39AAEF471970D_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.