Viðskipti innlent

Telja ekkert gefa grænt ljós á að ríkja­heiti njóti verndar frá vöru­merkja­skráningu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ísland og breska verslunarkeðjan Iceland hafa átt í deilum um notkun á orðinu ICELAND.
Ísland og breska verslunarkeðjan Iceland hafa átt í deilum um notkun á orðinu ICELAND. Vísir

Breska verslunarkeðjan Iceland Foods telur að markmið íslenskra stjórnvalda í deilunni um yfirráð yfir vörumerkinu Iceland sé að koma á fót reglu þess efnis að undir engum kringumstæðum verði hægt að skrá ríkjaheiti sem vörumerki. Iceland Foods telur að þetta eigi sér enga stoð í reglugerðum eða alþjóðasáttmálum.

Líkt og greint hefur verið frá á Vísi að undanförnu er áralangri deilu Íslands og bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods um vörumerkið Iceland ekki lokið. Ísland hafði betur gegn Iceland Foods fyrir tveimur árum síðan þegar skráning Iceland Foods á vörumerkinu var úrskurðuð ógild. Verslunarkeðjan áfrýjaði þeim úrskurði en nánar má lesa um forsögu málsins hér.

Fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins er nú með með málið til meðferðar, en Íslandi hefur meðal annars borist stuðningur frá Sviss, sem styður Ísland í málinu gegn Iceland Foods.

Áfrýjunarnefndin þarf meðal annars að taka afstöðu til fjórtán grundvallaratriða sem tengjast skráningu ríkjaheitis sem vörumerkis. Gafst málsaðilum kostur á senda inn eigin sjónarmið vegna málsins.

Vísa til þess að árleg velta sé helmingur af útflutningi Íslands til EES

Í september skilaði breska lögfræðistofan Mischon de Reya inn greinargerð fyrir hönd Iceland Foods. Greinargerðin er yfirgripsmikil þar sem farið er yfir fjölmarga anga málsins. Meðal annars er vísað í að árleg velta vörumerkja Iceland Foods sé um það bil helmingur af virði alls útflutnings frá Íslandi til ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, yfir sama tímabil.

Þá kemur fram sú skoðun Iceland Foods að markmið íslenskra yfirvalda í málinu sé í raun að koma á fót fordæmi þess efnis að undir engum kringumstæðum megi skrá ríkjaheiti sem vörumerki.

„Það er augljóst að ætlun Umsækjenda um niðurfellingu er að koma á fót eins konar reglu um að ríkjaheiti séu sérstakur flokkur merkja sem skuli alltaf vera algjörlega óskráningarhæf sem vörumerki í hvaða tilgangi sem er,“ segir í greinargerð Iceland Foods.

Vísa í orð Guðlaugs Þórs

Er þar meðal annars vísað til orða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra sem hann lét falla eftir að Hugverkastofa Evrópusambandsins ógilti vörumerkja skráningu Iceland Foods á vörumerkinu Iceland.

Guðlaugur Þór Þórðarson er utanríkisráðherra.Vísir/Vilhelm

„Ég fagna þessari niðurstöðu þótt hún komi mér ekki alls kostar á óvart enda gengur það gegn almennri skynsemi að erlent fyrirtæki geti slegið eign sinni á nafn fullvalda ríkis eins og þarna hefur verið gert,“ sagði Guðlaugur Þór við það tækifæri.

Í greinargerðinni segir að þessi krafa sé að mati Iceland Foods óvenjuleg, engin grundvöllur sé fyrir því að ríkjaheiti geti talist óskráanleg vörumerki miðað við þær reglugerðir og alþjóðasáttmála sem gildi um skráningu vörumerkja.

Ekki er ljóst hvenær niðurstöðu fjölskipuðu áfrýjunarnefndarinnar er að vænta. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er það háð ákveðinni óvissu þó ekki sé reiknað með niðurstöðu fyrr en á næsta ári eða jafn vel því þarnæsta.


Tengdar fréttir

Íslandi barst liðsauki frá Sviss í deilunni gegn Iceland Foods

Svissnesk samtök sem hafa það hlutverk að vernda orðspor þarlendrar framleiðslu hafa komið Íslandi til stuðnings í deilunni við bresku verslunarkeðjuna Iceland Foods. Framkvæmdastjóri samtakanna telur líklegt að deilan muni á endanum fara fyrir Evrópudómstólinn.

Er hægt að eignast vörumerkið Jamaíka og selja ís undir því nafni?

Eitt af þeim álitaefnum sem fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) þarf að taka afstöðu til í deilu Íslands og verslunarkeðjunnar Iceland Foods er hvort að ásættanlegt sé að selja banana undir nafni Íslands eða ís undir nafni Jamaíku.

Deilu Íslands og Iceland Foods ekki lokið

Deilu íslenskra yfirvalda og bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods um yfirráð yfir orðinu Iceland er ekki lokið. Fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) er með málið til umfjöllunar eftir að breska verslunarkeðjan áfrýjaði á síðasta ári úrskurði sem féll Íslandi í vil árið 2019.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×