Lífið

Norski pönkarinn Hank von Hell er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Hans-Erik Dyvik Husby, betur þekktur sem Hank von Hell, var forsprakki pönksveitarinnar Turbonegro.
Hans-Erik Dyvik Husby, betur þekktur sem Hank von Hell, var forsprakki pönksveitarinnar Turbonegro. Getty

Norski tónlistarmaðurinn Hans-Erik Dyvik Husby, betur þekktur sem Hank von Hell úr pönksveitinni Turbonegro, er látinn. Hann varð 49 ára.

Norskir fjölmiðlar greindu frá andlátinu um helgina en Husby var söngvari og forsprakki Turbonegro sem naut talsverðra vinsælda á tíunda áratugnum.

Meðal vinsælustu laga sveitarinnar eru I Got Erection og All My Friends Are Dead og átti sveitin aðdáendur einnig utan Noregs, meðal annars í Þýskalandi og Svíþjóð.

Hans-Erik Dyvik Husby sagði skilið við sveitina árið 2009 og flutti þá til Svíþjóðar, hóf þar sólóferil auk þess að leggja fyrir sig leiklistina. Var hann meðal annars hluti þungarokkssveitarinnar Doctor Midnight & The Mercy Cult, en árið 2014 sneri hann kvæði sínu í kross og gaf út rapplög með sveitinni Axel & Storebror.

Árið 2010 fór Husby með hlutverk sænska söngskáldsins Cornelis Vreeswijk í myndinni Cornelis og árið 2019 tók hann þátt í undankeppni Eurovision í Noregi með laginu Fake It.

Hann gaf út sjálfsævisögu árið 2012 þar sem hann sagði frá baráttu sinni við áfengis- og eiturlyfjafíkn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.