Veður

Skúrir, él og hiti all­víða í kringum frost­mark

Atli Ísleifsson skrifar
Hitinn á landinu verður allvíða í kringum frostmark í dag.
Hitinn á landinu verður allvíða í kringum frostmark í dag. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir suðvestan fimm til tíu metrum á sekúndu með skúrum eða éljum, en austanlands rofar hins vegar til og verður þurrt.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á norðvestanverðu landinu gangi hins vegar í norðaustan átta til þrettán metrum á sekúndu með éljagangi. Hitinn verður allvíða í kringum frostmark, en allt að fjögurra stiga hiti við suður- og vesturströndina.

„Á morgun snýst síðan í norðanátt og á austurhelmingi landsins verður um strekkings vind að ræða. Léttskýjað og fallegt veður um landið sunnan- og vestanvert, en dálítil él norðaustantil. Frost um allt land, á bilinu 0 til 6 stig.

Á sunnudag gengur síðan í allhvassa suðvestanátt með hlýnandi veðri. Búast má við rigningu eða slyddu á vesturhelmingi landsins, en austanlands ætti hann að hanga þurr.“

Spákortið fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Norðan 8-15 m/s, hvassast austanlands, en hægari vindur um kvöldið. Léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert, en él norðaustantil. Frost 0 til 6 stig.

Á sunnudag: Gengur í suðvestan og vestan 10-15, en 15-20 í vindstrengjum á norðanverðu landinu. Rigning eða slydda með köflum, en þurrt að kalla austanlands. Hiti 2 til 7 stig.

Á mánudag: Suðvestan 13-20 og rigning, en úrkomulítið á austanverðu landinu. Hiti 3 til 8 stig.

Á þriðjudag: Vestlæg eða breytileg átt, yfirleitt á bilinu 8-15 m/s. Víða slydda eða snjókoma, en rigning nærri suðurströndinni. Snýst í hvassa norðanátt seinnipartinn og talsverð snjókoma norðantil á landinu. Kólnandi veður.

Á miðvikudag: Útlit fyrir hvassa norðanátt með snjókomu eða éljum, en úrkomulítið sunnantil á landinu. Frost 3 til 10 stig.

Á fimmtudag: Snýst í vestlæga átt. Skýjað með köflum og úrkomulítið. Hlýnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×