126 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og hafa ekki greinst færri í tíu daga, eða síðan 7. nóvember. Þá liggja tuttugu inni á sjúkrahúsum á landinu vegna Covid-19 og fækkar um einn síðan í gær. Fjórir eru á gjörgæslu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bendir á að tölur geti verið mjög breytilegar milli daga.
„Við getum alveg eins átt von á því að þetta fari eitthvað aðeins upp aftur og aðeins niður. Verði ekki bein lína. En ég vona svo sannarlega að þetta séu vísbendingar um að þetta sé að þokast niður og þessar ráðstafanir og aðgerðir fólks og einstaklinga séu farnar að bera árangur,“ segir Þórólfur.
Skoða endurskilgreiningu á fullri bólusetningu
Koma þurfi nýsmituðum niður í 40-50 á dag til að faraldurinn verði viðráðanlegur fyrir kerfið. Það gæti tekið einhverjar vikur. Ekki sé útséð með hvort Þórólfur leggi til hertar aðgerðir. Afléttingar séu ekki inni í myndinni núna af hans hálfu.
„Ég mun bara taka ákvörðun um helgina hvort ég sendi nýtt minnisblað eða ekki. Það fer bara eftir því hvernig þróunin verður núna áfram.“
Þá velti framhaldið einnig á því hver árangur af þriðja bóluefnaskammti, örvunarskammtinum svokallaða, verði. Grannt verði fylgst með því. Þá sé til skoðunar hvort skilgreiningu á fullri bólusetningu verði breytt þegar fram líða stundir.
„Hvernig við útfærum það nákvæmlega, hvort við munum endurskilgreina fulla bólusetningu sem þrjár sprautur og þá eru kvaðir í samræmi við það eða hvort við munum skilgreina þetta sem þriðju bólusetningu af þremur, það hefur ekki verið að fullu leyst. Ef við sjáum gríðarlega góðan árangur sem ég er að vonast til þá getum við kannski með betri rökum gert kröfu um það að full bólusetning er þrír skammtar en ekki tveir,“ segir Þórólfur.