Ágúst Beinteinn Árnason, betur þekktur sem Gústi B, frumsýnir í dag á Vísi nýtt tónlistarmyndband. Refurinn Gústi Jr. Kemur ekki sjálfur fram í laginu en teiknimyndaútgáfa af honum leikur þar hlutverk.
Tónlistarmyndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
„Í nýja laginu læt ég allt flakka, það góða og slæma. Þetta eru ákveðin kaflaskil, að minnsta kosti vona ég það. Hver veit? Lagið er unnið af mér og Inga Bauer og svo sá $tarri um masteringu. Þetta var eitthvað sem lá mér á hjarta og ég þurfti að koma þessu frá mér,“ útskýrir Gústi.

„Tónlistarmyndbandið gerðu þeir Alex Snær og Úlfur E og svo fékk ég teiknara frá Bandaríkjunum til að breyta Gústa Jr. í teiknimyndafígúru.“

Safnar fyrir Píeta samtökin
Gústi ákvað að nýta þetta tækifæri til að styrkja við málefni sem er honum kært.
„Í tilefni af útgáfu lagsins verður hægt að kaupa bragðarefinn Gústa Jr. í Ísbúðinni Háaleiti og í samráði við Píeta samtökin rennur helmingur af verðinu til þeirra,“ útskýrir Gústi.

„Nú er Gústi Jr. orðinn bragðarefur, það var alltaf draumurinn. Í refnum eru jarðarber, kökudeig og hlaupperlur en það er einmitt uppáhaldið hans Gústa Jr. Fólk ræður svo hvort það fær sér gamla eða nýja.“ segir Gústi um ísinn.

„Með hverjum seldum bragðaref fá Píeta samtökin tæpar sex hundruð krónur svo ég vona auðvitað að sem flestir geri sér ferð í Háaleitið og fái sér einn Gústa. Ég vona að fólk njóti lagsins og ég hlakka til að gefa út meiri tónlist bráðlega,“ segir Gústi að lokum.
Lagið Gústi Jr. er líka komið inn á Spotify og má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.