Veiði

Margir komnir með jólarjúpur í hús

Karl Lúðvíksson skrifar
Rjúpan í vetrarbúningi.
Rjúpan í vetrarbúningi. MYND/af netinu

Rjúpnaveiðar virðast ganga ágætlega þrátt fyrir að veiðidagurinn hafi verið styttur á þann veg að aðeins megi ganga frá hádegi á leyfðum veiðidögum.

Skyttur landsins hafa verið duglegar á fjöllum frá því að veiðitíminn hófst á rjúpuna og það er ekki annað að sjá og heyra en að margir séu þegar komnir með í jólamatinn og séu hættir veiðum. Tilmæli þess efnis að reyna hafa rjúpu í forrétt hafa kannski ekki verið mönnum ofarlega í huga en af þeim skyttum sem við höfum heyrt af eru flestir að taka 10-15 rjúpur, stundum minna, og kalla þetta svo bara gott.

Það hefur ekki heyrst að skyttur séu að tala um að minna sé af fugli entil dæmis í fyrra en nokkrir hafa séð mjög stóra hópa á sinni göngu. Veiðitímabilið er nú bráðum hálfnað og það spáir ekki sérstöku veðri á suður og vesturlandi frá laugardegi en föstudagurinn lítur ágætlega út um allt land eins og er. Það verða því líklega fáir á fjöllum í þessum landshlutum þessa helgi en nokkuð líklegt er að þeir sem eiga eftir að ná í sínar rjúpur fari þá norður eða austur til að leita að fugli. Vikuna þar á eftir á samkvæmt spánni að snúast til norðlægra átta og þá kólnar heldur. Það þykir oft best að eltast við rjúpu í góðu frosti svo það er vonandi að spáin verði rjúpnaskyttum hliðholl svo sem flestir nái í jólamatinn.






×