Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á föstudaginn hertar innanlandsaðgerðir vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita í samfélaginu.
Strax aðfararnótt laugardagsins var grímuskyldu aftur komið á þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægðarreglu en aðrar þær takmarkanir sem kynntar voru tóku gildi nú á miðnætti.
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 500 manns: Á sitjandi viðburðum er heimilt að víkja frá eins metra nálægðarreglu meðan setið er, að því gefnu að allir beri grímu (tekur gildi frá og með 10. nóvember).
- Hraðpróf og skipulagðir viðburðir: Heimilt verður að skipuleggja viðburði fyrir allt að 1.500 manns. Gestum á slíkum viðburðum er skylt, þrátt fyrir hraðpróf, að bera grímu ef ekki er unnt að virða 1 metra nálægðarreglu (tekur gildi frá og með 10. nóvember). Sérstök heimild gildir áfram fyrir skólaskemmtunum í framhaldsskólum með notkun hraðprófa.
- Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru vínveitingar: Opnunartími styttist um 2 klst. og ber að loka kl. 23:00 og rýma staðina fyrir miðnætti. Tekin verður upp að nýju skráningarskylda gesta og skulu vínveitingar bornar til sitjandi gesta (tekur gildi frá og með 10. nóvember).