Stjórn Landsambands hestamannafélaga og landsliðsnefnd tóku þá ákvörðun að vísa Jóhanni Rúnari úr landsliðinu á sunnudag í kjölfar frétta Mannlífs um að hann hefði nýlega hlotið dóm fyrir heimilisofbeldi í Danmörku þar sem hann er búsettur og sömuleiðis dóm fyrir kynferðisbrot gegn þrettán ára gamalli stúlku árið 1993.
Í yfirlýsingu sem Jóhann Rúnar birti á vefsíðunni Eiðfaxa á þriðjudag hafnar hann því að hann hafi verið sakfelldur fyrir nauðgun í Héraðsdómi Norðurlands vestra. Þvert á móti hafi hann verið sýknaður af ákæru um nauðgun.
„Það er líka rangt sem segir í fréttinni að ég hafi vitað hvað stúlkan var gömul. Hins vegar taldi dómurinn að ég hafi sýnt af mér stórfellt gáleysi um aldur stúlkunnar og því var ég sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940 og dæmdur í 4 mánaða fangelsi þar sem 3 mánuðir voru skilorðsbundnir,“ segir í yfirlýsingunni.
Ákvæði hegingarlaga sem Jóhann Rúnar vísar í fjallar um samræði eða önnur kynferðismök við börn undir fimmtán ára aldri.
Hvað heimilisofbeldisdóminn í Danmörku frá 2016 varði segir Jóhann Rúnar það rangt að hann hafi þurft að ganga með ökklaband, þvert á fullyrðingar Mannlífs. Hann hafi verið dæmdur í fjörutíu daga skilorðsbundið fangelsi. Hann hafi þurft að sinna samfélagsþjónustu í sextíu klukkustundir til að uppfylla skilorðið og það hafi hann gert.
„Ég get ekki breytt því liðna. Ég iðrast hins vegar gjörða minna og bið brotaþola í ofangreindum málum afsökunar,“ segir í yfirlýsingu Jóhanns Rúnars.