Solskjær er undir gríðarlega mikilli pressu eftir 0-5 tap fyrir Liverpool á Old Trafford í fyrradag. United hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er í 7. sæti hennar.
Þrátt fyrir það er mjög líklegt að Solskjær verði áfram við stjórnvölinn þegar United sækir Tottenham heim á laugardaginn samkvæmt heimildum The Athletic.
Æðstu prestar hjá United funduðu í gær og hafa ákveðið að halda tryggð við Solskjær, allavega fram yfir leikinn gegn Tottenham.
Í grein The Athletic kemur fram að Solskjær sé ekki lengur með alla leikmenn United á sínu bandi og þeir séu orðnir þreyttir á taktísku ráðaleysi hans. Ástandið er þó ekki jafn slæmt og þegar José Mourinho var rekinn fyrir tæpum þremur árum.
Leikmenn United fengu frí í gær en mæta aftur á æfingasvæðið í dag. Þar verður væntanlega farið vel yfir leikinn skelfilega gegn Liverpool.
Antonio Conte ku hafa áhuga á stjórastarfinu hjá United og í gær var greint frá því að félagið hefði sett sig í samband við hann. Conte er án starfs eftir að hafa hætt hjá Inter eftir síðasta tímabil.
Conte vill venjulega ekki taka við liði á miðju tímabili en er tilbúinn að gera undirtekningu í tilfelli United. Hann þekkir vel til á Englandi eftir að hafa stýrt Chelsea á árunum 2016-18. Undir hans stjórn varð liðið bæði Englands- og bikarmeistari.