„Þetta var alveg fáránlega súrrealískt. Því hann er svo stór fyrirmynd í lífi mínu og hefur verið stór partur af því síðan maður var bara krakki,“ segir Vignir í samtali við Vísi.
Þegar þetta er skrifað er Kanye að fylgja rúmlega fjögur þúsund manns á miðlinum. Og Vignir Daði er einn þeirra.

Erlendir miðlar hafa fjallað um það undanfarið að Kanye hafi tekið upp á því að fylgja ýmsum af sínum fylgjendum sem eru með alveg svarta prófílmynd á miðlinum.
Vignir segist hafa vitað af þessu og skipt sjálfur í svarta mynd upp á grínið. Og í dag kom svo tilkynning um að Kanye hefði fylgt honum.
„Ég var ekkert að senda neitt á hann eða neitt og hélt aldrei að hann væri að fara að fylgja mér. Þetta kom bara upp úr þurru. Allt í einu byrjaði síminn að titra hjá mér,“ segir Vignir.
Og síminn hefur eiginlega ekki hætt að titra síðan. Svo stór er Kanye í tónlistar- og tískuheiminum að þegar Vignir lét vita á eigin miðli að nú væri Kanye að fylgja sér fóru skilaboð og símtöl frá vinum hans (og forvitnum fréttamönnum) að hrúgast inn.
„Svo er ég líka að fá fullt af nýjum fylgjendum, sem eru að fylgja mér núna bara því hann var að gera það. Síminn bara hefur ekki hætt að titra síðan hann fylgdi mér í dag.“
