Körfubolti

Fær 4,3 milljarða í laun fyrir tímabilið en neitar að mæta í vinnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid og Ben Simmons eru stærstu stjörnur Philadelphia 76ers liðsins.
Joel Embiid og Ben Simmons eru stærstu stjörnur Philadelphia 76ers liðsins. EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Bandarískir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að stórstjarnan Ben Simmons sé búinn að ákveða það að spila ekki fleiri leiki með liði Philadelphia 76ers í NBA-deildinni.

Simmons var mjög ósáttur með hvernig hlutirnir spiluðust á síðasta tímabili en mikið hefur verið sagt og skrifað um skelfilega skotnýtingu kappans sem er annars góður sendingamaður, öflugur frákastari og frábær varnarmaður.

Hann er 211 sentimetra leikstjórnandi sem var með 14,3 stig, 7,2 fráköst og 6,9 stoðsendingar að meðaltali á sínu fjórða tímabili en allar þessar tölur lækkuðu frá tímabilinu á undan þegar kappinn var með 16,4 stig, 7,8 fráköst og 8,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Simmons hefur nú, samkvæmt heimildum ESPN, lýst því yfir við forráðamenn Philadelphia 76ers að hann muni ekki klæðast NBA treyju aftur fyrr en hann sé kominn í annað lið.

Simmons á hins vegar eftir fjögur ár af samningi sínum við félagið sem ætlar að borga honum 147 milljónir Bandaríkjadala fyrir þessi fjögur tímabil eða yfir nítján milljarða króna. Bara fyrir komandi 2021-22 tímabil á Ben Simmons að fá 33 milljónir dala eða 4,3 milljarða í íslenskum krónum.

Félagið vill halda þessum öfluga leikmanni, sem er enn bara 25 ára gamall, og það væri líka erfitt að skipta honum nema að gefa afslátt á virði hans sem er ekki eftirsóknarvert fyrir 76ers.

Simmons gaf félaginu aftur á móti þessa afarkosti í ágúst og hefur ekki verið í neinu sambandi við félagið síðan.

Sixers getur auðvitað sektað Simmons fyrir að mæta ekki í vinnuna eða hætt að borga honum. Hver leikur sem hann missir af mun síðan kosta hann meira en 227 þúsund dollara eða 29 og hálfa milljón í íslenskum krónum.

Það er einkum slök frammistaða Simmons í undanúrslitum Austurdeildarinnar sem fór fyrir brjóstið á mönnum en þar var hann aðeins með 9,9 stig í leik, 33 prósent vítanýtingu og skaut ekki einu þriggja stiga skoti sem bakvörður. Simmons var mjög ósáttur með að hafa verið gerður að blóraböggli eftir að liðið datt óvænt út á móti Atlanta Hawks en samband hans og yfirmanna félagsins hefur annars ekki verið á góðri leið í nokkur ár.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×