Það er ljósmyndarinn Viðar Logi sem tók ljósmyndirnar fyrir herferðina. Hann hafði skamman tíma til að mynda hvern einasta leikara leikhússins og hver og ein mynd þurfti að vera einstök. Þær eru því jafn ólíkar og þær eru margar.

„Herferðin markar ný tímamót í samfélaginu og hjá leikhúsinu eftir strembið ár sem einkenndist af mikilli óreglu og óvissu af sökum heimsfaraldursins. En með tilkomu lauslegra nálægðartakmarkana er loks hægt að sækja leikhúsin á ný. Þessi tímamót kölluðu á ferskan blæ í markaðsefni Borgarleikhússins og því var leitað til Viðars Loga, sem er ungur íslenskur ljósmyndari sem starfar á milli Íslands og London,“ segir í tilkynningu um herferðina.

„Það er alltaf ábægjulegt að finna fyrir trausti í verkefnum. Borgarleikhúsið gaf okkur frjálsar hendur að taka hvaða myndir sem okkur datt í hug með leikurunum á staðnum.,“segir Viðar Logi um myndirnar.

Hefur myndað fyrir Björk, Vogue og Bresku óperuna
Í gegnum árin hefur Viðar Logi þróað með sér áberandi stíl sem fangað hefur athygli ýmissa kúnna á borð við Björk Guðmundsdóttur, breska, ítalska og pólska Vogue, Of Monsters and Men, Paper Magazine, Daniel Lismore, Bresku Óperuna og nýverið Borgarleikhúsið.

„Ljósmyndastíll Viðars Loga er ögrandi og ævintýragjarn, því var tilvalið að Viðar hafi fengið frjálsar hendur til að skapa myndheim fyrir herferðina í samvinnu við Filippíu Elísdóttur, listrænan ráðgjafa og sviðshöfund,“ segir um verkefnið.

„Við vorum mjög spennt að vinna með Viðari Loga þar sem það er augljóst að hann er stórkostlegur ljósmyndari og útkoman fór langt fram úr okkar vonum. Bæði var eisntakt að vinna með honum og einnig var lokaútkoma myndanna frábær,“ segir Pétur Rúnar Heimisson markaðsstjóri Borgarleikhússins.

Einlægur undir pressu
Alls voru 41 leikarar myndaðar á þremur dögum, sem reyndist krefjandi þar sem hver og ein mynd þurfti að vera einstök og segja sína sögu.
„Hugmyndirnar sem fæðast undir pressu eru yfirleitt einlægastar. Umhverfið krafðist þess að maður þurfti að hugsa mikið á hlaupum sem kitlar mig alltaf á réttu stöðunum, sérstaklega þegar maður er að vinna með leikurum og hægt að setja þá í alls konar aðstöður,“
segir Viðar Logi enn fremur.

Verkefnið var framleitt af NORÐUR, framleiðslufyrirtæki og listrænni stofu sem sérhæfir sig í hágæða auglýsingaverkefnum þar sem listræn sköpun er í forgangi. Á mála hjá Norður er fjöldi hæfileikaríkra ljósmyndara og leikstjóra sem hafa unnið alþjóðleg verkefni fyrir kúnna á borð við Samsung, Volvo, O2 og HM.

Einnig hefur NORÐUR framleitt verkefni fyrir Icelandair, Símann og Arion Banka og fleiri kúnna hérlendis. Nýjustu verkefnin úr smiðju NORÐUR eru ljósmyndaherferðin fyrir Borgarleikhúsið eftir Viðar Loga, herferð fyrir TM leikstýrð af Álfheiði Mörtu og herferð fyrir Ljósið leikstýrð af Ninnu Pálma.

Hægt er að skoða margar ljósmyndir Viðars Loga á Instagram.