Íslenska CrossFit konan Anníe Mist Þórisdóttir hefur verið brautryðjandi á ferli sínum í CrossFit íþróttinni og hún er hvergi nærri hætt að fara nýjar leiðir. Ný fjárfesting hennar vekur sérstaka athygli hjá CrossFit miðlinum Morning Chalk Up.
Fréttirnar sem kalla á umfjöllun Morning Chalk Up eru þær sem komu nýverið af fjárfestingu Anníe í drykkjavöruframleiðandanum Yerbae. Yerbae framleiðir koffendrykk sem er sterkari en kaffi og svart te.
Anníe hafði áður samið um að verða sendiherra fyrirtækisins fyrir heimsleikana í haust og var þá fyrsti íþróttamaðurinn sem gekk til liðs við stofnendurna Karrie og Todd Gibson.
Sex vikum seinna hefur Anníe tekið að sér stærra hlutverk með því að fjárfesta í fyrirtækinu og taka um leið að sér sæti í stjórn þess.
Morning Chalk Up segir að þetta skref sem Anníe tekur sé að mörgu leiti einstakt fyrir CrossFit íþróttamann og líkir því sem aðrir stórir atvinnuíþróttamenn í öðrum íþróttagreinum hafa verið að gera.
Það sem sker sig hér úr er að Anníe er að fjárfesta í fyrirtæki sem hefur í raun ekkert með CrossFit að gera. Hingað til hefur CrossFit fólk aðallega fjárfest í CrossFit-íþróttasölum eða öðrum rekstri tengdum íþróttinni.
NBA stjörnurnar Lebron James og Steph Curry eru nefndir til sögunnar í grein Morning Chalk Up en báðir hafa þeir fjárfest hundruð milljóna í verðbréfum ýmissa fyrirtækja. Blaðamaðurinn segir að Anníe sé nú að fara svipaða leið.
Í grein Morning Chalk Up er bent á það að þetta skref sem Anníe tekur gæti verið ný leið fyrir CrossFit fólk í framtíðinni. Íþróttafólkið gæti stigið skref í átta að framtíð sinni eftir íþróttina með því að fjárfesta í fyrirtækjum utan CrossFit heimsins.