Fótbolti

Benzema með þrennu er Real kom tví­vegis til baka og tyllti sér á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Benzema skoraði þrennu í kvöld.
Benzema skoraði þrennu í kvöld. Diego Souto/Getty Images

Real Madríd lék í kvöld sinn fyrsta heimaleik á Santiago Bernabeu síðan í mars á síðasta ári er Celta Vigo komst í heimsókn. Þrátt fyrir að lenda tvívegis undir vann Real leikinn 5-2.

Santi Mina kom gestunum yfir strax á fjórðu mínútu en Karim Benzema jafnaði metin 20 mínútum síðar. Franco Cervi kom Celta í 2-1 og þannig var staðan í hálfleik. 

Benzema jafnaði metin eftir aðeins mínútu leik í síðari hálfleik og Vinicius Junior kom Real yfir í fyrsta skipti þegar síðari hálfleikur var tíu mínútna gamall.

Fyrst Benzema gat ekki skorað það mark þá lagði hann einfaldlega mark Vinicius upp. Það var svo nýi maðurinn, Eduardo Camavinga, sem skoraði fjórða mark Real en hann gekk í raðir félagsins á dögunum.

Undir lok leiks fengu heimamenn vítaspyrnu, Benzema fór á punktinn og skoraði þriðja mark sitt. Lokatölur því 5-2 Real Madríd í vil í þessum fyrsta alvöru heimaleik í meira en eitt og hálft ár.

Real fer með sigrinum á topp La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar, með 10 stig líkt og Valencia og Spánarmeistarar Atlético Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×